Viðskipti innlent

Heið­rún ráðin fram­kvæmda­stjóri SFF

Bjarki Sigurðsson skrifar
Heiðrún Jónsdóttir er nýr framkvæmdastjóri SFF.
Heiðrún Jónsdóttir er nýr framkvæmdastjóri SFF.

Heiðrún Jónsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Hún tekur við starfinu af Katrínu Júlíusdóttur og hefur þegar hafið störf.

Heiðrún hefur starfaður sem lögmaður í áraraðir. Þá hefur hún setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, til dæmis Regins, Icelandair, Símans, Olís, Norðlenska, Reiknistofu bankanna, Ístaks, Arion verðbréfavörslu og Royal Arcitc Line á Grænalandi. Síðast sat hún í stjórn Íslandsbanka sem varaformaður en í dag tilkynnti bankinn að hún væri hætt í stjórninni.

Heiðrún var framkvæmdastjóri hjá Eimskip á árunum 2006-2012 og stýrði meðal annars starfsmannamálum og markaðsmálum. Þá var hún framkvæmdastjóri LEx á árunum 2003-2005, upplýsingafulltrúi Símans 2001 til 2003 og starfsmannastjóri KEA árin 1998 til 2001.

„Ég hlakka til að taka til starfa hjá Samtökum fjármálafyrirtækja og með því góða fólki sem þar starfar. Innan aðildarfélaganna starfar öflugur, fjölbreyttur og kraftmikill hópur sem ég hlakka til að starfa með. Verkefnin eru fjölbreytt og afar áhugaverð. Fjármálafyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og markaðurinn er síbreytilegur og fjölbreyttur,“ er haft eftir Heiðrúnu í tilkynningu. 

Innan Samtaka fjármálafyrirtækja eru 25 aðildarfélög. Þar starfa nú 6 starfsmenn. Stjórnarformaður er Lilja Björk Einardóttir, bankastjóri Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×