Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hóf sérstaka umræðu um öryggis- og varnarmál á Alþingi í morgun. Hún sagði stríð Rússa gegn Úkraínu hafa gerbreytt stöðu heimsmála. Þetta væri árás á saklaust fólk í Úkraínu en einnig árás á lýðræðið sjálft og sjálfstæði ríkja. Breyttar aðstæður kölluðu á stóraukið samstarf vestrænna lýðræðisríkja og þar væri Ísland engin undantekning.

„Það er alveg ljóst að aðgerðir Íslands í öryggis- og varnarmálum verða nú að taka mið af breyttri heimsmynd og nýjum ógnum vestrænna lýðræðisþjóða. Í þessu felst meðal annars virkara samstarf í gegnum tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og aukin þátttaka okkar í borgaralegum verkefnum NATO,“ sagði Þorgerður Katrín.
Hún spurði hvernig stjórnvöld sæju fyrir sér að Ísland léti meira til sín taka innan NATO samstarfsins.
„Og það þarf líka að gera varnarsamstarfið við Bandaríkin virkara. Tryggja meðal annars að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti á netöryggi og tryggi órofið samband Íslands við umheiminn. Á sviði flutninga, orkuöryggis, fjarskipta, svp dæmi séu nefnd,“ sagði formaður Viðreisnar.
Rússar hafi ítrekað verið að kortleggja sæstrengina við Ísland, nú síðast í ágúst. Skemmdir á gasleiðslunum í Eystrasalti gerðu þetta mál enn mikilvægara.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók undir með formanni Viðreisnar að innrás Rússa í Úkraínu fæli í sér breytingar á öryggismálum á heimsvísu og þar væru Íslendingar ekki undanskyldir. Þjóðaröryggisstefna Íslands frá 2016 sem meðal annars fól í sér stofnun þjóðaröryggisráðs hefði sannað gildi sitt.

Katrín sagði að nú væri unnið að uppfærslu á mati ráðsins á þjóðaröryggismálum í ljósi innrásarinnar. Framlög til varnarmála hefðu verið aukin verulega á síðasta kjörtímabili.

„Við höfum líka verið að auka framlög til netöryggismála. Sú áhersla fellur ekki af himnum ofan. Heldur metum við það svo að þar sé raunveruleg hætta á ferð. Því hafa framlög til þeirra verið markvisst aukin,“ sagði forsætisráðherra.
Skemmdarverk á gasleiðslum í Eystrasalti færðu atburðarásina nær Íslendingum.
„Og við höfum fylgst grannt með þessum atburðum og verið í samskiptum við okkar nágrannaríki um aðgerðir og viðbúnað. Við munum bregðast við í samræmi við þau gögn sem við fáum. Ég vil nefna það sérstaklega í þessu sambandi að það er mjög mikilvægt að við treystum betur í sessi varasamband um gervihnetti og ráðumst í endurnýjun á ratsjár og fjarskiptakerfum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.