„Það er mat yfirvalda að um vísvitandi aðgerðir sé að ræða. Þetta er ekki slys,“ sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra á blaðamannafundi á sjöunda tímanum í kvöld. Danska ríkisútvarpið greinir frá.
Tvær sprengingar greindust í gær á mælitækjum í Svíþjóð og Noregi þegar þrjú göt mynduðust á Nord Stream 1 og Nord Stream 2 leiðslunum í Eystrasalti. Danir birtu í dag myndefni sem sýnir lekana á yfirborði hafsins.
Frederiksen sagði á blaðamannafundinum að dönsk yfirvöld litu atvikið alvarlegum augum, staðan væri eins alvarleg og hún gæti orðið. Þó ætlaði hún ekki að fara út í getgátur um það hver gæti staðið að baki sprengingunum.
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur sagði á fundinum að ekki hafi enn verið haft samband við Rússa vegna málsins en í dag hafa verið uppi getgátur um að þeir gætu borið ábyrgð á sprengingunum.
Frederiksen bætti við að danir hefðu hækkað viðbúnaðarstig vegna nálægðar lekanna við Borgundarhólm. þrátt fyrir að ekki væri talið að íbúum eyjarinnar stafi hætta af lekunum.
Dan Jørgensen loftslags-, orku- og birgðaráðherra útskýrði á fundinum að leiðslurnar tvær liggi á sjötíu til níutíu metra dýpi, séu tólf sentímetrar á þykkt, og samanstandi af stáli og steypu. „Þetta þýðir að ekki hefur verið um slys af völdum akkeris eða álíka að ræða,“ sagði hann.