Innlent

Vilja flytja Út­lendinga­stofnun til Reykja­nes­bæjar

Atli Ísleifsson skrifar
Einn flutningsmanna tillögunnar er Birgir Þórarinsson sem kjörinn var á þing fyrir Miðflokkinn á síðasta ári, en gekk fljótlega til liðs við þingflokk Sjálfstæðismanna.
Einn flutningsmanna tillögunnar er Birgir Þórarinsson sem kjörinn var á þing fyrir Miðflokkinn á síðasta ári, en gekk fljótlega til liðs við þingflokk Sjálfstæðismanna. Vísir/Vilhelm

Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að starfsemi Útlendingastofnunar verði flutt til Reykjanesbæjar. Vilja þingmennirnir með þessu fjölga sérfræðistörfum og hlutfall háskólamenntaðra á svæðinu og segja að hentugt væri að hafa stofnunina staðsetta í nánd við Keflavíkurflugvöll.

Þingmennirnir sem leggja fram tillöguna eru Birgir Þórarinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson, en stofnunin er nú til húsa að Dalvegi í Kópavogi og eru starfsmenn 86 talsins.

Í greinargerðinni segir að þrátt fyrir að það geti verið eitthvert óhagræði fyrir núverandi starfsmenn Útlendingastofnunar að starfsemin verði flutt út fyrir höfuðborgarsvæðið, þá sé Reykjanesbær skammt frá höfuðborgarsvæðinu „og því ekki sérlega íþyngjandi fyrir starfsmenn stofnunarinnar ef hún yrði flutt til Reykjanesbæjar“.

Vilja fjölga sérfræðistörfum í Reykjanesbæ

Þingmennirnir benda á að mikill meirihluti opinberra stofnana sé á höfuðborgarsvæðinu og af því leiði að störf flestra stofnana standi í raun einungis íbúum höfuðborgarsvæðisins til boða.

„Með flutningi Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar væri tekið stórt skref í átt að því að tryggja fjölbreytt atvinnutækifæri utan höfuðborgarsvæðisins. Á Suðurnesjum er hlutfall háskólamenntaðra mun lægra en landsmeðaltal. Mikill meiri hluti starfa hjá Útlendingastofnun eru sérfræðistörf sem krefjast háskólamenntunar. Með flutningi stofnunarinnar til Reykjanesbæjar væri því sérfræðistörfum fjölgað og hlutfall háskólamenntaðra á svæðinu bætt,“ segir í greinargerðinni.

Hátt hlutfall innflytjenda sem nýti þjónustuna

Ennfremur segir að þar að auki búi fjöldi innflytjenda á Suðurnesjum sem nýti sér þjónustu stofnunarinnar, en um níu present íbúa bæjarins eru af erlendum uppruna. „Þá er rétt að líta til þess að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd kemur til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll og því er væri hentugt að stofnunin væri í meiri nálægð við flugvöllinn.“

Þingmennirnir vísa einnig í að í desember 2021 hafi atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu verið fimm prósent á sama tíma og það hafi verið um tíu prósent í Reykjanesbæ. Skýrsla Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um samfélagsgreiningu á Suðurnesjum frá í október 2021 sýni fram á að atvinnulíf á Suðurnesjum sé einhæft og framboð atvinnu takmarkað.

„Þá kjósi margir íbúar svæðisins að starfa í Reykjavík þar sem fleiri möguleikar og fjölbreyttara úrval starfa sé í boði. Atvinnulífið í Reykjanesbæ er að miklu leyti háð flugsamgöngum og ferðaþjónustu og lítið er um sérfræðistörf á öðrum sviðum. Flutningur Útlendingastofnunar til sveitarfélagsins myndi því ótvírætt fela í sér nauðsynlega fjölbreytni vinnumarkaðarins á Suðurnesjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×