Erlent

Til á­taka kom vegna gleðigöngu og 64 mót­mælendur hand­teknir

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Mótmælandi talar við hinsegin fólk sem tók þátt í EuroPride göngunni.
Mótmælandi talar við hinsegin fólk sem tók þátt í EuroPride göngunni. EPA-EFE/ANDREJ CUKIC

Til átaka kom á milli serbnesku lögreglunnar í Belgrad og tveggja hægri sinnaðra mótmælendahópa þegar gleðiganga var farin. Tíu lögreglumenn eru slasaðir eftir átökin og 64 mótmælendur sagðir handteknir.

Gangan markaði endalok Evrópsku pride vikunnar en hún er haldin í mismunandi evrópskri borg ár hvert.

Reuters greinir frá því að áður hafi serbnesk stjórnvöld bannað göngur sem þessar og mikið hafi verið um ofbeldi og átök þegar þær voru haldnar. Gleðigöngur hafi þó farið vel fram á seinustu árum og því hafi Belgrad orðið fyrir valinu þetta árið.

hinseginaktívisti heldur á regnbogaregnhlíf á bakvið vegg lögreglumanna áður en gangan hófst.EPA-EFE/ANDREJ CUKIC

Þrátt fyrir það hafi ekki verið víst að hún fengi fram að ganga en serbnesk stjórnvöld eru sögð hafa bannað gönguna í síðustu viku í kjölfar mótmæla hægrisinnaðra og trúarsamtaka. Stjórnvöldum hafi þó snúist hugur  eftir að kvartanir bárust frá mannréttindasamtökum meðal annars og gangan farið fram. Þátttakendur hafi samt sem áður gengið styttri vegalengd en lagt var upp með.

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×