Lýðræðishátíðin Fundur fólksins er formlega sett, og nú í sjöunda skiptið. Viðburðadagskrá er í Norræna húsinu og Grósku en fundurinn stendur yfir í dag og á morgun. Tilgangur hans er að skapa vettvang þar sem boðið er til samtals á milli almennings, stjórnmálafólks og frjálsra félagsamtaka.
Hægt er að fylgjast með fundinum í beinu streymi á Vísi en Pála Hallgrímsdóttir, einn af skipuleggjendum, segir að það sé líka mikilvægt að mæta og láta til sín taka í samfélagsumræðunni.
„Með viðveru og spjalli við aðra á svæðinu. Þarna verða stjórnmálamenn sem oft getur verið erfitt að nálgast ella.“
Fundinum lýkur svo á morgun með stæl en Bergið headspace stendur fyrir lokatónleikum Fundar fólksins þar sem Stjórnin og Birnir ætla að troða upp.
„Það ætla að labba frá Berginu og vera með skrúðgöngu. Vonandi munu mörg hundruð ungmenni ganga frá berginu og upp í Norræna húsið og enda á tónleikum,“ segir Pála Hallgrímsdóttir.
Læsi barna verður í brennidepli nú í upphafi hátíðarinnar. Rithöfundurinn Gunnar Helgason mun stýra pallborðsumræðum með krökkum á aldrinum 9-12 ára. Þeir eru nær óteljandi, fréttatímarnir, þar sem fullorðnir láta í ljós áhyggjur sínar af læsi barna en kannski að krakkarnir sjálfir séu með lausnirnar?
„Krakkarnir sjálfir ætla að segja okkur hvað þau vilja lesa og vonandi segja þau okkur hvers vegna þau hætta síðan að lesa. Þetta er lítið skref í átt að því að finna lausn og að láta þau lesa lengur í lífinu en svona um 12 ára aldurinn þá er hætta á að Tik Tok taki yfir og ýmisleg önnur afþreying.“

En þegar krakkarnir tala þá er líka mikilvægt að hin fullorðnu hlusti.
„Ég vonast til þess að það verði þarna svolítið af rithöfundum og útgefendum sem heyri hvað krakkarnir hafa fram að færa,“ segir Gunnar Helgason, vongóður.