Matvælaráðherra skipaði fjóra starfshópa í vor meðal annars til að endurskoða fiskveiðilöggjöfina. Það var gert því fullreynt þótti að hægt væri að ná einhverri sátt um breytingar á löggjöfinni þrátt fyrir að endurtekið hafi komið fram að gera þarf endurbætur á henni.
Við höfum sagt frá því að samkvæmt tímalínu ráðuneytisins sé gert ráð fyrir fullbúnu frumvarpi vorið 2024 og var gagnrýnt af stjórnarandstöðu hversu langt væri í það.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra boðar þó breytingar mun fyrr.
„Við erum annars vegar í fiskveiðistjórnunarkerfinu og sjávarútvegi almennt með þessa stóru vinnu sem við gerum ráð fyrir að standi yfir um nokkurra missera skeið. Það breytir því ekki að á sama tíma mun ég koma fram með frumvörp og breytingar sem að liggja í augum uppi og m.a. nokkur mál sem munu líta dagsins ljós á þingmannaskrá í næstu viku,“ segir Svandís.
Vantar alfarið stefnu um fiskeldi
Svandís segir einnig gríðarmikið verkefni óunnið þegar kemur að löggjöf um fiskeldi hér á landi. Ríkisendurskoðun kanni nú lagaumhverfi greinarinnar en fleira sé á döfinni.
„Ríkisendurskoðun er nú að fara yfir lagaumhverfið og framkvæmdina almennt þegar kemur að fiskeldi. Við höfum líka fengið Boston Consulting Group til að gera heildarstefnumörkun fyrir fiskeldið sem því miður er ekki til. Ég fann fyrir því á ferð minni um Vestfirði að fólk kallar mjög eftir því að það verði gert í þessum stóra málaflokki,“ segir Svandís.