Innlent

Varð­skipið Þór til taks við Gríms­ey

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Varðskipið liggur við höfn í Reykjavík. Myndin er úr safni.
Varðskipið liggur við höfn í Reykjavík. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Varðskipið Þór kom að Grímsey um hádegisbil í dag og verður við eyjuna næstu daga. Öflug jarðskjálftahrina hefur riðið yfir í námunda við eyjuna síðan 8. september og var óvissustigi almannavarna lýst yfir á föstudaginn.

RÚV greinir frá því að varðskipið liggi við akkeri um hálfa mílu frá landi. Um borð er átján manna áhöfn.

„Við verðum hérna bara til taks. Við verðum bara tilbúnir rétt við eyjuna. Við erum eins og alltaf bara klárir, með léttbáta og allt sem til þarf ef það þarf flutninga hér úr eyjunni,“ segir Eiríkur Bragason skipherra í samtali við fréttastofu RÚV.

Þúsundir jarðskjálfta hafa mælst nálægt Grímsey síðan jarðskjálftahrinan hófst og stærsti skjálftinn í hrinunni var 4,9 að stærð. Náttúruvársérfræðingur sagði við fréttastofu Vísis í gær að ekki væri hægt að útiloka stærri skjálfta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×