Róbert Aron hefur ekki skorað meira í einum og sama leiknum fyrir Valsmenn síðan hann gekk í raðir félagsins árið 2018.
„Þetta er náttúrulega búið að vera fínt upp á síðkastið, þurfti reyndar að fara í sprautu eftir aðgerðina. Þetta er búið að haldast þokkalega eftir það, samt búið að vera pínu eltingaleikur. Kannski hvíla aðeins og er ekki mikið að skjóta á æfingum. Vel bardagana, leiki og þess háttar. Hægt og rólega núna lítur þetta vel út,“ sagði Róbert Aron er hann ræddi við Guðjón Guðmundsson, Gaupa, um stöðu mála.
„Alltaf eftir aðgerðir, sama hvernig er. Sérstaklega svona axlaraðgerð, í handbolta. Er erfitt og tekur tíma að jafna sig,“ sagði Róbert Aron um endurhæfinguna.
Hefur Róbert Aron verið í betra standi síðan hann skrifaði undir á Hlíðarenda?
„Ekki síðan ég kom til Vals held ég. Það er hrikalega vel æft hérna og Snorri (Steinn Guðjónsson, þjálfari) mikið að hlaupa. Maður er í ágætis standi þar en auðvitað má vera í betra standi, maður er aldrei nógu ánægður með sjálfan sig.“
Valur vann þrefalt á síðustu leiktíð og hefur unnið sjö titla í röð. Er pressan að utan eða setur liðið sjálft á sig pressu?
„Þetta er gaman og forréttindi að fá að vinna. Þess vegna verðum við ekkert saddir, þetta venst vel. Nú er bara að spýta í lófana og halda áfram. Við erum ekkert hættir núna.“
„Er ekki eðlilegt að það sé pressa á liði sem vinnur þrefalt og hefur unnið sjö titla í röð? Ætli við setjum líka meiriháttar pressu á okkur sjálfa, við ætlum líka að vera Evrópumeistarar – það er alveg á hreinu,“ bætti Róbert Aron við og glotti.