Fótbolti

Heimir í viðræður við HB

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Guðjónsson stýrði síðast liði Vals en lét af störfum í júlí.
Heimir Guðjónsson stýrði síðast liði Vals en lét af störfum í júlí. vísir/Diego

Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Guðjónsson gæti mögulega verið á leið aftur til starfa í Færeyjum þar sem hann starfaði við afar góðan orðstír.

Sigursælasta félag Færeyja, HB, setti sig í samband við Heimi og óskaði eftir viðræðum við hann. Heimir, sem er án starfs sem stendur, staðfesti það í samtali við Vísi að hann hefði samþykkt viðræður eftir tímabilið.

Samningur núverandi þjálfara HB, Dalibor Savic, rennur út eftir tímabilið sem lýkur í lok október.

Heimir, sem er 53 ára gamall, stýrði HB leiktíðirnar 2018 og 2019 og var valinn þjálfari ársins fyrra árið, eftir að hafa gert HB að Færeyjameistara. Seinna árið varð liðið bikarmeistari undir stjórn Heimis.

Frá Færeyjum fór Heimir til Vals og skrifaði undir samning við félagið haustið 2019. Hann gerði Val að Íslandsmeistara 2020, eins og hann hafði áður gert svo oft hjá FH, en lét af störfum í júlí í sumar eftir að árangur liðsins hafði verið undir væntingum í fyrra og á þessari leiktíð.

HB er sigursælasta lið Færeyja með 24 meistaratitla, fimm fleiri en KÍ. Félagið vildi halda Heimi eftir tímabilið 2019 en hann ákvað þá frekar að snúa aftur heim í íslenska boltann.

HB er sem stendur í 3. sæti færeysku deildarinnar, þegar sex umferðir eru eftir, en nánast alveg búið að missa af möguleikanum á meistaratitlinum, sextán stigum á eftir toppliði KÍ. Þá er liðið í undanúrslitum bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×