Carlsen hefur gefið út að hann muni ekki reyna að verja heimsmeistaratitil sinn þar sem hann finni ekki fyrir neinum hvata til þess. Alls hefur hann orðið heimsmeistari í skák fimm sinnum. Hann er þó enn að keppa í skák og var kominn í þriðju umferð á Sinquefield-mótinu.
Um er að ræða virt alþjóðlegt skákmót þar sem heildarverðlaunafé er í kringum hálf milljón Bandaríkjadala. Mótið er einnig hálfgert lokamót Grand Chess-mótaraðarinnar þar sem flestir af bestu skákmönnum heims keppa.
Carlsen tapaði fyrir hinum 19 ára gamla Hans Niemann í 3. umferð mótsins og ákvað í kjölfarið að hætta þátttöku í mótinu. Var þetta í annað sinn sem Carlsen tapar fyrir Niemann á innan við mánuði. Vitað er að Niemann svindlaði er hann spilaði skák á veraldarvefnum sem ungur drengur en hann segist betri maður í dag. Það virðist sem Carlsen kaupi það ekki alveg ef marka má færslu heimsmeistarans á Twitter.
„Ég hef dregið mig úr keppni. Ég hef alltaf notið þess að spila í Saint Louis skákklúbbnum (þar sem mótið fer fram) og vonast til að snúa aftur í framtíðinni,“ stendur í færslunni en undir textanum er myndbandsbútur úr viðtali sem José Mourinho fór í fyrir mörgum árum. Þar segir Mourinho: „Ég verð í miklum vandræðum ef ég tjái mig.“
I've withdrawn from the tournament. I've always enjoyed playing in the @STLChessClub, and hope to be back in the future https://t.co/YFSpl8er3u
— Magnus Carlsen (@MagnusCarlsen) September 5, 2022
Það er nokkuð ljóst að Carlsen telur vera brögð í tafli og segja má að skáksamfélagið sé á hliðinni vegna málsins.