Innlent

Lokað á tón­­leika­hald vegna kvartana íbúa: „Við bara köllum á borgina: Hjálp, plís“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Listahópurinn hefur starfað í rýminu í um tvö ár og hleypt þar að hinum ýmsu listamönnum sem vilja spreyta sig og halda sýningar, tónleika og margt fleira.
Listahópurinn hefur starfað í rýminu í um tvö ár og hleypt þar að hinum ýmsu listamönnum sem vilja spreyta sig og halda sýningar, tónleika og margt fleira. vísir/sigurjón

Íbúar í Skerjafirði hafa ítrekað kvartað í borgaryfirvöld vegna hávaða sem hefur borist frá tónleikahaldi í gamalli skemmu. Borgin hefur nú bannað allt viðburðahald þar, sem kemur flatt upp á leigjendur rýmisins. Þeir segjast hafa fengið að leigja rýmið af borginni einmitt til að halda þar viðburði.

Það er list­fé­lagið Klúbburinn sem gerði samning við borgina fyrir tveimur árum um að fá að leigja rýmið. Samningurinn var gerður undir verk­efni borgarinnar Skapandi borg. Húsin sem um ræðir er stað­sett á vinnu­svæði við Skelja­nes. Það var áður notað undir starf­semi Skeljungs.

Tals­menn lista­fé­lagsins segja það hafa komið flatt upp á sig þegar borgin á­kvað ný­lega að taka fyrir við­burða­hald þar.

„Það lá fyrir að þetta rými var út­hlutað lista­mönnum til að æfa og setja upp list­ræna við­burði. Það var í samningnum,“ segir Urður Bergs­dóttir, ein af þeim sem sér um Tóma rýmið svo­kallaða, eitt af þeim rýmum sem hópurinn heldur úti á svæðinu.

Síðasta eitt og hálfa árið hafa verið haldnir alls kyns tón­leikar, rave og leik­sýningar í húsunum.

Í þessari húsalengju eru rýmin en þau eru staðsett á vinnusvæði 150 metrum frá næsta íbúðarhúsi í Skerjafirði.vísir/sigurjón

„Mér finnst þetta ein­stakur staður á lista­sviðinu. Við veitum mörgum verk­efnum rými sem gætu senni­lega ekki fundið neinn annan stað, verk­efni sem koma fyrst fram hér,“ segir Diego Man­at­rizio sem sér um alla tón­listar­við­burði í einu rýminu.

Hafa ekki leyfi til viðburðahalds

Sam­kvæmt svörum sem borgin veitti frétta­stofu vegna málsins var list­hópurinn þó aldrei með leyfi fyrir við­burða­haldi.

Í­búar á svæðinu hafi í­trekað kvartað vegna há­vaða seint á kvöldum frá húsunum og því hafi þeir verið bannaðir þar til til­skilin leyfi fást.

„Þetta var smá skellur og núna höfum við lokað fyrir opna við­burði þangað til við erum búin að leysa úr alls konar flækjum,“ segir Urður.

Þau Diego, Birnir og Urður eru ein af þeim sem halda utan um starfsemi rýmanna þriggja sem eru öll staðsett hlið við hlið á gamla Shell-svæðinu í Skerjafirði.vísir/sigurjón

Ljóst er að fara verður í miklar fram­kvæmdir og úr­bætur á húsinu til að slík leyfi verði veitt - fram­kvæmdir sem lista­hópurinn segist ekki hafa tök á að fara í enda starf­semi hans öll gróða­laus.

„Ef við náum ekki að fá að­stoð frá borginni þá verðum við bara að loka þessari starf­semi. Og við erum með mjög mikil­væga gras­rótar­starf­semi hérna í gangi,“ segir Birnir Jón Sigurðs­son.

Þau segjast ekki hafa fengið beinar kvartanir frá í­búum en taki þær auð­vitað al­var­lega og séu til­búin að bæta úr ýmsu til að halda allri starf­semi sinni gangandi.

Og nú vonast þau til að borgin stígi inn í og veiti þeim nauð­syn­legt fjár­magn til að bæta húsið og gera það við­burða­hæft.

„Við bara köllum á borgina: Hjálp, plís,“ segir Urður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×