„Þetta var rosaleg byrjun og það gekk allt upp hjá okkur. Leikplanið sem Arnar [Gunnlaugsson] setti upp gekk fullkomlega upp og allir voru með sitt á hreinu. Við fórum í 3-4-3 kerfi og vildum særa þá út á köntum og koma með fyrirgjafir og við fengum okkar bestu færi þannig,“
Karl Friðleifur skoraði annað mark Víkings og fagnaði með því að stara á varamannabekk Breiðabliks en Karl er uppalin í Breiðabliki.
„Það eru miklar tilfinningar í boltanum og maður gerir oft vitlausa hluti þegar það eru tilfinningar í þessu. Ég er ekki stoltur af þessu fagni en þetta gerðist í augnablikinu og því fór sem fór.“
„Það hefði verið betra að sleppa þessu en þetta er eitt besta liðið á landinu og við vorum að slátra þeim.“
Karl Friðleifur þurfti síðan að fara af velli meiddur í fyrri hálfleik en Karl var tæpur fyrir leikinn.
„Skrokkurinn á mér er að koma til baka. Ég fékk í lærið á móti KR og það eru tíu dagar síðan og maður vissi að það yrði tæpt að koma inn í þennan leik og þegar það er stórleikur þá er maður ekki meiddur og ég lét mig hafa það. En það var síðan rétti tímapunkturinn að fara út af eftir 30 mínútur.“
Karl Friðleifur reiknaði svo með að hann og liðsfélagar hans í Víkingi myndu horfa saman á einvígi FH og KA í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á morgun.