Innlent

Vatnsbúskapur í Evrópu í mikilli hættu vegna hlýnunar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands.
Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. Vísir/Baldur

Bráðnun jökla hefur aldrei verið meiri en í ár. Veðurstofustjóri segir vatnsbúskap í sérstakri hættu og segir það skýrt hverjar afleiðingar hlýnunar verði í framtíðinni.

Árni Snorrason veðurstofustjóri gerði grein fyrir niðurstöðum alþjóðlegrar ráðstefnu um svokallað freðhvolf sem haldin var í Hörpu í vikunni í Sprengisandi í morgun. 

Viðtalið við Árna má hlusta í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Hugtakið freðhvolf vísar til vatns á föstu formi, hvar sem það finnst á jörðunni, sem ís, snjór eða hafís. Aðstæður hérlendis eru um margt ákjósanlegar til vöktunar á freðhvolfinu en ljóst er að freðhvolfið hnignar mjög hratt og afleiðingar þess eru margvíslegar. Vatnsbúskapur segir Árni að sé í sértakri hættu.

„Umhverfi bæði manns og náttúru er að breytast, við sjáum það í Ölpunum þar sem er meiri en nokkru sinni fyrr. Þetta hefur gríðarleg áhrif fyrir allan vatnsbúskap, það er ekki lengur hægt að flytja vörur um ár eins og Rín, sem hefur auðvitað verið grundvallar-farvegur fyrir vöruflutninga.“

Ýmsar aðrar afleiðingar séu nú þegar farnar að hafa mjög mikil áhrif á líf fólks víða um veröld. Áhrifin séu þó ekki staðbundin. Vísindamenn hérlendis hafa kortlagt áhrif hækkunar sjávaryfirborðs. 

Nú þegar eru komnar fram óafturkræfar afleiðingar hlýnunar, segir Árni. Líkön vísindamanna fyrir afleiðingar hlýnunar séu skýrar og nákvæmar en tímaramminn er óljósari.

„Það breytir ekki því að þessi kerfi eru að bráðna en hversu hratt… það er engin óvissa um það. En hingað til hefur skekkjan verið sú að menn hafa vanmetið breytingarnar frekar en hitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×