Eftir frábæran 2-1 sigur gegn Tyrklandsmeisturum Trabzonspor í fyrri leik liðanna héldu leikmenn FC Kaupmannahafnar til Tyrklands í leikinn sem gæti komið liðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn síðan 2016.
Tyrkirnir byrjuðu töluvert betur og gerðu hvað þeir gátu til að komast yfir en bæði Hákon Arnar og Ísak Bergmann þurftu að bíta í það súra epli að byrja leikinn á bekknum. Allt kom þó fyrir ekki og staðan markalaus er liðin gengu til búningsherbergja.
Staðan var áfram markalaus í síðari hálfleik, Hákon Arnar kom inn á þegar 79 mínútur voru liðnar og hjálpaði FCK að halda út. Lokatölur 0-0 og Danmerkurmeistararnir komnir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Eftir leik var eðlilega fagnað ágætlega enda nokkur ár síðan liðið komst alla leið í riðlakeppni í Meistaradeild Evrópu. Að fagnaðarlátunum loknum þurfti hins vegar að taka til í klefanum. Þar hjálpuðu Hákon Arnar og Ísak Bergmann til en birt var mynd af þeim félögum að sjá til þess að klefinn væri sem smekklegastur.
„Vel uppaldir drengir,“ segir í færslu FC Kaupmannahafnar á Twitter og eru foreldrar drengjanna tveggja eflaust mjög sammála um það.
Dregið verður í riðla Meistaradeildar Evrópu klukkan 16.00 í dag. Sjá má dráttinn beint á Vísi.