Fótbolti

„Vel upp­aldir drengir“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tekið til eftir fagnaðarlæti.
Tekið til eftir fagnaðarlæti. Twitter@FCKobenhavn

Skemmtileg mynd var birt á samfélagsmiðlum FC Kaupmannahafnar eftir að liðið tryggði sér sæti í riðakeppni Meistaradeildar Evrópu. Sjá má myndina hér að ofan en þar sjást íslensku landsliðsmennirnir Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson hjálpa til við að þrífa klefann að loknum fagnaðarlátunum eftir leik.

Eftir frábæran 2-1 sigur gegn Tyrklandsmeisturum Trabzonspor í fyrri leik liðanna héldu leikmenn FC Kaupmannahafnar til Tyrklands í leikinn sem gæti komið liðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn síðan 2016.

Tyrkirnir byrjuðu töluvert betur og gerðu hvað þeir gátu til að komast yfir en bæði Hákon Arnar og Ísak Bergmann þurftu að bíta í það súra epli að byrja leikinn á bekknum. Allt kom þó fyrir ekki og staðan markalaus er liðin gengu til búningsherbergja.

Staðan var áfram markalaus í síðari hálfleik, Hákon Arnar kom inn á þegar 79 mínútur voru liðnar og hjálpaði FCK að halda út. Lokatölur 0-0 og Danmerkurmeistararnir komnir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. 

Eftir leik var eðlilega fagnað ágætlega enda nokkur ár síðan liðið komst alla leið í riðlakeppni í Meistaradeild Evrópu. Að fagnaðarlátunum loknum þurfti hins vegar að taka til í klefanum. Þar hjálpuðu Hákon Arnar og Ísak Bergmann til en birt var mynd af þeim félögum að sjá til þess að klefinn væri sem smekklegastur. 

„Vel uppaldir drengir,“ segir í færslu FC Kaupmannahafnar á Twitter og eru foreldrar drengjanna tveggja eflaust mjög sammála um það.

Dregið verður í riðla Meistaradeildar Evrópu klukkan 16.00 í dag. Sjá má dráttinn beint á Vísi.


Tengdar fréttir

Íslendingalið FCK áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar

Dönsku meistararnir í FC Kaupmannahöfn verða í pottinum á morgun þegar dregið verður í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir samanlagðan 2-1 sigur á tyrkneska liðinu Trabzonspor í umspili um laust sæti í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×