Forsaga málsins er sú að kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu í febrúar að innkaup landlæknis af Origo hf., er lúta að þróun á Heklu heilbrigðisneti, gerð og þróun Heilsuveru og þróun fjarfundarlausnar til notkunar á heilbrigðissviði, hafi verið ólögmæt og í andstöðu við lög um opinber innkaup.
Landlæknisembættinu var í úrskurðinum gert að bjóða út slík innkaup sem og að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð níu milljónir króna.
Í tilkynningu á vef Embættis landlæknis kemur hins vegar fram að embættið og lögmenn þess telji verulega annmarka á úrskurði kærunefndarinnar.
Hefur embættið því farið fram á úrskurður kærunefndarinnar verði endurupptekinn og kröfum í málinu vísað frá eða hafnað.
Harma það að þurfa að stefna Köru Connect
Á vef embættisins segir hins vegar að þar sem ákvörðun um endurupptöku liggi ekki fyrir og að frestur til að höfða mál til ógildingar úrskurðarins þurfi að leggja málið fyrir dómstóla.
„Embættinu er því nauðugur sá kostur að stefna Köru Connect ehf. og fleiri aðilum fyrir dóm og harmar að þess sé þörf. Embættið vill taka skýrt fram að það gerir ekki athugasemdir við að kæru fyrirtækisins, heldur úrskurð kærunefndar útboðsmála. Leikreglurnar eru því miður þannig að ekki er heimilt að stefna kærunefndinni. Stefna þarf kæranda og öllum aðilum máls til þess að fá breytingu eða ógildingu á úrskurði nefndarinnar fallist hún ekki á endurupptöku. Embættið myndi vilja sjá löggjafann breyta þeim reglum,“ segir í tilkynningu embættisins.
Telur embættið ógerlegt að útfæra úrskurðarorð kærunefndar auk þess sem þau kalli á kostnað sem kann að hlaupa á hundruðum milljóna króna.
„Embætti landlæknis finnst því mikilvægt að skorið verði úr um m.a. túlkun og beitingu laga um opinber innkaup varðandi samninga þá sem embættið, og heilbrigðisráðuneytið þar á undan, gerðu áður en þau lög tóku gildi.“