Erlent

Sví­þjóðardemó­kratar mælast stærri en Modera­terna

Atli Ísleifsson skrifar
Jimmie Åkesson hefur gegnt embætti formanns Svíþjóðardemókrata frá árinu 2005.
Jimmie Åkesson hefur gegnt embætti formanns Svíþjóðardemókrata frá árinu 2005. Getty

Fylgi Svíþjóðardemókrata mælist umtalsvert meira en hægriflokksins Moderaterna í nýrri könnun, nú þegar um þrjár vikur eru til þingkosninga í Svíþjóð. Jafnaðarmannaflokkurinn, undir stjórn forsætisráðherrans Magdalenu Andersson, mælist sem fyrr stærstur.

Í könnun SVT/Novus mælast Svíþjóðardemókratar með 21,5 prósent fylgi, á meðan Moderaterna, sem hefur verið stærsti flokkurinn á hægri væng stjórnmála, mælist með 17,4 prósent fylgi.

Jafnaðarmannaflokkurinn, sem leiðir minnihlutastjórn í landinu með stuðningi Miðflokksins, Vinstriflokksins og Græningja, mælist í könnuninni með 27,8 prósenta fylgi.

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð 11. september næstkomandi, en líkt og eftir síðustu kosningar reikna magir með að erfiðlega gæti reynst að mynda nýja ríkisstjórn. Ein helstu tíðindin á kjörtímabilinu, sem senn er á enda, er að hægriflokkarnir Moderaterna, Frjálslyndir og Kristilegir demókratar, hafa opnað á samstarf við Svíþjóðardemókrata, sem barist hafa gegn straumi innflytjenda til landsins, eftir að hafa fram til þess lokað á slíkt samstarf.

Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, og Magdalena Andersson, forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð.EPA

Miðflokkurinn, sem áður var hluti af borgaralegu blokkinni í sænskum stjórnmálum, ákvað að verja ríkisstjórn Jafnaðarmanna og Græningja vantrausti eftir kosningarnar 2018, eftir að stjórnarmyndunarviðræður drógust mjög á langinn. Eftir það hefur andað nokkuð köldu milli Miðflokksmanna og borgaralegu blokkarinnar.

Könnun SVT/Novus (fylgi flokkanna í þingkosningum 2018 er að finna innan sviga)

  • Moderaterna: 17,4 prósent (19,8)
  • Frjálslyndi flokkurinn: 4,4 prósent (5,5)
  • Miðflokkurinn: 6,7 prósent (8,6)
  • Kristilegir demókratar: 6,0 prósent (6,3)
  • Jafnaðarmannaflokkurinn: 27,8 prósent (28,3)
  • Vinstriflokkurinn: 9,6 prósent (8,0)
  • Græningjar: 5,5 prósent (4,4)
  • Svíþjóðardemókratar: 21,5 prósent (17,5)
  • Aðrir flokkar: 1,1 prósent
  • Óvissir: 5,8 prósent



Fleiri fréttir

Sjá meira


×