Kristrún segir í tilkynningu, sem send var á fjölmiðla í morgun, að hún vilji á fundinum segja frá því „hvernig [hún] telji að endurvekja [megi] von og trú fólks á að það sé hægt að breyta og reka samfélagið okkar betur.“
Í tilkynningunni segir hún þó ekki berum orðum að hún muni bjóða sig fram til formanns. Þó er haft eftir henni að frá því að hún hafi verið kjörin á Alþingi hafi hún haldið fjölda opinna funda vítt og breitt um landið.
„Ég vil sækja mér efnivið og innblástur beint til fólksins sem ég starfa fyrir. Það er ekki gert úr ræðustól heldur með samtölum í augnhæð,“ segir Kristrún sem hélt síðasta vor í fundaferð um landið og hélt 37 fundi undir yfirskriftinni Samræða um framtíðina.
„En fundurinn í dag verður með öðru sniði. Ég hef notað sumarið í íhugun og samtöl um stöðuna í stjórnmálunum. Nú vil ég segja frá hvernig ég tel að megi endurvekja von og trú fólks á að það sé hægt að breyta og reka samfélagið okkar betur. Og hvernig ég tel að Samfylkingin geti náð aftur vopnum sínum með því að leggja ofuráherslu á kjarnamálin og með því að ná aftur virkari tengingu við fólkið í landinu,“ segir Kristrún.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, greindi frá því í júní að hann myndi láta af störfum sem formaður, eftir að hafa gegnt embættinu frá í október 2016. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, útilokaði í gærmorgun framboð til formanns.
Kristrún ehfur verið þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður frá árinu 2021. Áður en hún tók sæti á þingi gegndi hún stöðu aðalhagfræðings Kviku banka frá 2018 til 2021.
Landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn dagana 28. og 29. október á Grand Hótel í Reykjavík.