Víkingar slógu KR-liðið út úr bikarnum í fyrra með 3-1 sigri í sextán liða úrslitum keppninnar. Viktor Örlygur Andrason, Nikolaj Andreas Hansen og Erlingur Agnarsson komu Víkingum í 3-0 en Kristján Flóki Finnbogason minkaði muninn á 90. mínútu.
Það þarf að fara aftur til ársins 2005 til að finna síðasta skipti sem KR sló Víking út úr bikarkeppninni en úrslitin úr þeirri viðureign réðust ekki fyrr en í vítakeppni sem KR vann 6-5 eftir 3-3 jafntefli í leiknum.
Víkingur var þarna B-deildarlið og undir stjórn Sigurðar Jónssonar en Magnús Gylfason þjálfaði lið KR.
Arnar Gunnlaugsson, núverandi þjálfari Víkings, var leikmaður KR í þá daga og kom inn á sem varamaður í hálfleik. Arnar náði þó ekki að klára leikinn því hann fór meiddur af velli á 78. mínútu.
Kristján Finnbogason var hetja KR-liðsins í vítakeppninni því hann varð tvær vítaspyrnur og skoraði úr einni sjálfur. Það var þó hinn átján ára gamli Gunnar Kristjánsson sem skoraði úr vítaspyrnunni sem tryggði KR sigurinn.
Mörk Víkinga í leiknum skoruðu þeir Davíð Þór Rúnarsson, Egill Atlason og Hörður Bjarnason en mörk þeirra í vítakeppninni gerðu Daníel Hafliðason, Höskuldur Eiríksson, Jóhann Hreiðarsson, Elmar Dan Sigþórsson og Egill.
Mörk KR-inga í leiknum skoruðu þeir Garðar Jóhannsson, Gunnar Kristjánsson og Grétar Ólafur Hjartarson en mörk þeirra í vítakeppninni gerðu þeir Sigurvin Ólafsson, Garðar, Grétar, Kristján, Jökull I Elísabetarson og Gunnar.
Víkingur og KR hafa alls mæst fimm sinnum í bikarnum, KR hefur fagnað þrisvar sigri (1967, 1978 og 2005) en Víkingar tvisvar (1974 og 2021).