Það að notast við geitfé til að sporna við skógareldum tíðkaðist oft undir lok nítjándu aldar. Nú hafa yfirvöld í Barselóna lagt traust sitt á dýrin til að redda málunum en hitabylgjur og miklir þurrkar hafa verið að hrjá þjóðir um sunnanverða Evrópu í allt sumar.
„Þetta er ekki ný uppfinning. Við erum að endurheimta eitthvað sem var nú þegar til og var að hverfa,“ hefur The Guardian eftir Guillem Canaleta, starfsmanni Pau Costa-verkefnisins. Verkefnið gengur út á að nýta geitfé til að éta upp gras svo minni hætta sé á eldunum.
Þó dýrin minnki líkurnar á skógareldum, þá geta þau ekki útrýmt þeim. Samkvæmt The Guardian eiga þau að skilja eftir bletti með engu grasi svo eldurinn nái ekki mikilli dreifingu á stuttum tíma. Þá eiga slökkviliðsmenn auðveldara með að ná stjórn á aðstæðum.