Innlent

Vilja bið­lista­bætur í borginni

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sjálfstæðismenn lögðu tillöguna fram á síðasta borgarráðsfundi. Hildur Björnsdóttir er leiðtogi Sjálfstæðismanna í borgarstjórn. 
Sjálfstæðismenn lögðu tillöguna fram á síðasta borgarráðsfundi. Hildur Björnsdóttir er leiðtogi Sjálfstæðismanna í borgarstjórn.  vísir/vilhelm

Sjálf­stæðis­menn vilja koma á svo­kölluðum bið­lista­bótum í Reykja­vík fyrir for­eldra þeirra barna sem eru eldri en 12 mánaða en hafa ekki fengið pláss á leik­skóla. Bæturnar myndu hljóða upp á 200 þúsund krónur á mánuði á hvert barn. Meiri­hlutinn tekur ekki illa í hug­myndirnar en segir megin­á­hersluna þá að fjölga leik­skóla­plássum.

„Við lögðum það til á síðasta fundi borgar­ráðs að þeim börnum 12 mánaða og eldri sem ekki fengu leik­skóla­plássið sem þeim var lofað fengju svo­kallaðar bið­lista­bætur, 200 þúsund krónur á hvert barn. Og það væri þá á­kveðin viður­kenning á því að borgin er ekki að veita börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á og hefur verið lofað,“ segir Hildur Björns­dóttir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í borginni.

„Þetta er auð­vitað ekki lausn á vandanum en þetta yrði alla­vega á­kveðin mála­miðlun til for­eldra á meðan við erum að leysa þennan vanda.“

Spurð hvort þetta sé raun­hæf leið eða hvort kostnaðurinn við hana yrði ekki of mikill segir Hildur:

„Meiri­hlutinn var búinn að lofa því og gerir ráð fyrir að öll börn á þessum aldri verði búin að fá leik­skóla­pláss fyrir lok þessa árs. Ég sé ekki að það gangi eftir og þá hlýtur að vera svig­rúm fyrir þetta í fjár­mála­á­ætlunum borgarinnar því það er dýr þjónusta að veita barni leik­skóla­þjónustu. Og þessar bætur yrðu meira að segja ó­dýrari heldur en sú þjónusta.“

Skúli Helga­son, borgar­full­trúi Sam­fylkingarinnar og for­maður stýri­hóps um leik­skóla­mál, segir að sér lítist ekki endi­lega illa á þessar hug­myndir Sjálf­stæðis­manna.

„Við erum bara opin fyrir öllum hug­myndum til að reyna að bæta stöðuna. Okkar for­gangs­verk­efni er hins vegar að fjölga plássunum. Það er það sem á endanum skiptir lang­mestu máli fyrir for­eldra og sú vinna er í fullum gangi,“ segir Skúli.

Skúli Helgason segir óviðráðanlegar aðstæður hafa valdið töfum á Ævintýraborgunum.Vísir/Einar

Margir leikskólar að opna í ár

Hann bendir á að í næstu viku opni nýr leik­skóli við Klepps­veg fyrir 120 börn, undir lok septem­ber­mánaðar opni síðan fjórði nýi leik­skólinn á árinu, stækkun á Múla­borg í Ár­múlanum með 60 ný pláss. „Síðan eru önnur verk­efni sem munu bætast þar við síðar á árinu. Þannig að við erum í þessum fasa að fjölga plássunum um tvö þúsund í heildina,“ segir Skúli.

Morgun­blaðið greindi frá því í morgun að opnun þriggja leik­skóla undir heitinu Ævin­týra­borgir hefði seinkað enn meira og myndu ekki opna fyrir byrjun næsta skóla­árs. Ævin­týra­borg við Vörðu­skóla opnar í desember miðað við á­ætlanir en Ævin­týra­borgir í Voga­byggð og við Naut­hóls­veg opna ekki fyrr en í októ­ber.

Skúli segir að for­eldrum hundrað barna hafi þegar verið lofað pláss við Naut­hóls­veg. 25 þeirra hafi verið komið inn í Ævin­týra­borg á Eggerts­götu, sem er eina Ævin­týra­borgin sem búið er að opna, en eftir standi 75 börn sem verið er að leita leiða fyrir.

„Þetta er vinna sem við erum í þessa dagana, að skoða mögu­leika á því að flýta ferlinu. Ég á von á því að það skýrist síðar í vikunni,“ segir Skúli.

Á­stæða seinkunarinnar sé sú að leik­skólarnir séu svo­kölluð eininga­hús sem eru flutt inn að utan. Að­stæður á heims­markaði og skortur á stáli hafi valdið því að af­hendingar­ferlinu hafi seinkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×