Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði tvö mörk og Hallgrímur Mar Steingrímsson eitt þegar KA vann sannfærandi 3-0 sigur gegn ÍA í 17. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á KA-vellinum í dag.
Skagamenn misstu mann af velli með rautt spjald eftir 35. mínútna leik og heimamenn gengu á lagið með þremur góðum mörkum í seinni hálfleik.
Með mörkunum tveimur er Nökkvi Þeyr orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar með 13 mörk.
KA menn byrjuðu leikinn mun betur og héldu boltanum ágætlega innan síns liðs á meðan gestirnir voru beinskeyttir og settu boltann hátt og langt fram völinn og reyndu að sækja hratt.
Á 9. mínútu mátti engu muna að KA kæmist yfir. Eftir klaufagang í vörn ÍA og lak boltinn rétt fram hjá stönginni eftir snertingu frá þeirra eigin manni.
Á 20. Mínútu fengu Skagamenn dauðafæri þegar Haukur Andri Haraldsson fékk boltann inn á teignum, átti skot í samherja, en fékk boltann aftur og átti laust skot sem Jajalo átti ekki í neinum vandræðum með.
Næstu 15 mínútur eða svo gerðist lítið í leiknum og hvorugt liðið að ógna af neinu viti. En á 35. mínútu var Hallgrímur Mar með boltann og sótti í átt að marki gestanna og skaut boltanum hægra megin við Hlyn Sævar, varnarmann ÍA, og í þann munn sem Hallgrímur ætlaði stinga sér hinu megin við hann skellti Hlynur síðu sinni utan í Hallgrím og felldi hann. Pétur Guðmundsson, dómari, mat það svo að Hlynur hafi verið aftasti varnarmaður og rak hann af velli með rautt spjald.
Sveinn Margeir tók aukaspyrnuna í kjölfarið sem fór á markið en Árni Marinó varði vel. Sveinn Margeir var svo aftur á ferðinni stuttu fyrir hálfleik þegar hann átti skalla í stöng eftir fyrirgjöf frá Þorra Mar.
Tíu Skagamenn héldu út hálfleikinn og staðan markalaus í hálfleik.
Nökkvi Þeyr byrjaði seinni hálfleikinn með frábæru skoti frá vinstri en boltinn fór rétt yfir markið.
KA tóku í framhaldinu öll völd á vellinum og var í raun bara tímaspursmál hvenær fyrsta markið kæmi. Nökkvi Þeyr og Hallgímur Mar ógnuðu mikið og það var einmitt Nökkvi sem skoraði fyrsta mark leiksins á 68. mínútu eftir að Sveinn Margeir potaði boltanum til hans inn í teignum og Nökkvi kláraði vel meðfram jörðinni í fjærhornið.
Fimm mínútum seinna björguðu Skagamenn nánst á línu frá Nökkva Þey þegar hann átti skot á markið eftir að Árni Marinó var kominn út úr markinu Einungis mínútu síðar lagði hann svo upp annað mark leiksins á Hallgrím Mar sem tók boltann með sér til vinstri í teignum og kláraði færið sitt vel.
Títtnefndur Nökkvi Þeyr átti svo lokaorðið þegar hann skoraði þriðja og síðasta mark leiksins á 87. mínútu eftir skyndisókn. Varamaðurinn Steinþór Freyr bar þá boltann upp og setti hann á hárréttu augnabliki til vinstri á Nökkva sem geislaði af sjálfstrausti og renndi boltanum í fjærhornið. 3-0. Með þessu marki er Nökkvi orðinn markahæstur í deildinni sem stendur með 13 mörk.
Fleiri urðu mörkin ekki og öruggur 3-0 sigur KA staðreynd.
Af hverju vann KA?
KA menn voru betri frá upphafi en áttu ekki sérstakan leik fram að rauða spjaldinu sem kom á 35. míníutu. Í Seinni hálfleiknum var bara spurning hvenær gæðamikið lið KA myndi ná að skora gegn botnliðinu sem voru einum færri í þokkabót.
Hverjir stóðu upp úr?
Nökkvi Þeyr skoraði tvö mörk í dag og sá til þess að hann yrði markahæstur í deildinni eins og stendur. Hallgrímur Mar var einnig mjög ógnandi og þá átti Rodri ekki í neinum vandræðum með að stjórna leiknum á miðjunni í dag.
Hvað gekk illa?
ÍA gekk illa að halda bolta innan liðs og ekki varð það skárra þegar Hlyni Sævari var vikið af velli.
Hvað gerist næst?
KA mætir Stjörnunni í Garðabæ sunnudaginn 21. ágúst kl. 17:00.
Á sama tíma mætast ÍA og ÍBV á Akranesi.