Hermann Valsson leiðsögumaður var staddur í Meradölum í gærkvöldi þegar hann varð vitni að því sem hann kallar firringu. Í skriflegri ábendingu til fréttastofu segir hann að vegna rigningar og úða á svæðinu hafi verið erfitt að fóta sig á svæðinu og margir hafi hrasað og dottið á leiðinni að gosstöðvunum.

„Erlendir ferðamenn, hjón höfðu farið þarna upp með tvö ung börn sín það eldra ca. 6 ára og það yngra ca. 5 ára. Á leiðinni niður þá örmagnast börnin og gátu ekki gengið lengra og þá voru foreldrarnir einnig algjörlega búin á því,“ segir hann.
Hermann segist hafa ásamt björgunarsveitarmönnum reynt að stöðva för fólksins og kalla eftir hjálp en fjölskyldufaðirinn hafi ekki viljað óska eftir aðstoð af ótta við að kostnaður hlytist af því.
„Eftir mikið tuð og þras gáfu hjónin eftir að stoppa og samþykkja að við myndum kalla eftir hjálp,“ segir Hermann.
Aðstoð hafi borist eftir rúmlega hálfa klukkustund og vel hafi verið staðið að henni. Fjölskyldan hafi verið flutt niður af fjallinu á bíl björgunarsveitar og í sjúkrabíl.
Ferðamenn hafi enga pössun
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, segist ekki hafa heyrt af atvikinu sem Hermann lýsir, í samtali við Vísi. Hann segir þó að algengt sé að fólk fari með börn upp að eldgosinu.
„Við skulum bara segja það að túristarnir eru ekki með pössun þannig að þeir náttúrulega upp með börnin. Sum börn eru nú oft í betra formi en sumir foreldrar en það er annað mál. Stundum velja menn bara vitlaus augnablik,“ segir hann.