Innlent

Gleðin við völd í mið­bænum

Árni Sæberg skrifar
Engum ætti að leiðast í Gleðigöngunni.
Engum ætti að leiðast í Gleðigöngunni. Stöð 2/Egill

Gleðigangan, hápunktur Hinsegin daga, hófst klukkan 14. Gangan hefur ekki verið gengin síðan árið 2019 vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og því er gleðin við völd, sem hún er reyndar alltaf.

Í Gleðigöngunni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín, að því er segir á vef Hinsegin daga.

Að vanda er mikið um dýrðir í göngunni en auk skrautlegra þemavagna, búninga og tónlistar er gleðigangan vettvangur til að minna á þau baráttumál sem skipa hinsegin fólk hvað mestu máli hverju sinni.

Fréttamaður okkar er í miðbænum að taka þátt í gleðinni og segir að mikil stemning sé í mannskapnum og mætingin sé góð.

„Það er rosalegur mannfjöldi hérna, ég stend á Lækjargötu og gangan er að fara hérna fram hjá. Ég hef sjálf farið í Gleðigönguna á hverju ári síðan árið 2014 og ég hef aldrei séð svona margt fólk og aldrei séð svona góða stemningu. Fólk öskrar og klappar á meðan fólkið í göngunni fer fram hjá. Það er geggjuð stemning hérna,“ segir Hallgerður Kolbrún fréttamaður. 

Hún segir að þeir gestir sem hún hefur talað við séu ótrúlega ánægðir með að vera mættir í gönguna eftir tveggja ára hlé. 

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá göngunni:

Stöð 2/Egill
Stöð 2/Egill
Stöð 2/Egill



Fleiri fréttir

Sjá meira


×