Skoðun

Biden boðar á­fram­haldandi of­sóknir og morð

Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Biden forseti Bandaríkjanna heimsótti fyrir skömmu Ísrael og Palestínu. Í tvo daga ræddi hann við stjórnvöld í Ísrael og dagpart skrapp hann yfir á Vesturbakkann og hitti Abbas forseta Palestínu.

Í viðræðunum við Abbas ítrekaði Biden að Bandaríkjastjórn styddi friðarsamkomulag sem binda á enda á hernám Ísraela á landi Palestínumanna - og tveggja ríkja lausnina sem á að leiða til stofnunar sjálstæðs Palestínuríkis.

En raunveruleg stefna Bandaríkjaforseta í málefnum Ísraels og Palestínu opinberaðist í örfáum orðum sem forsetinn muldraði við komuna til Tel Aviv: „Við munum ræða áframhaldandi stuðning minn – jafnvel þó ég viti að það sé ekki á næstunni – við tveggja ríkja lausnina. Það er enn, að mínu mati, besta leiðin til að tryggja framtíð jafnt frelsis, velmegunar og lýðræðis fyrir Ísraela og Palestínumenn“.

Biden veit vel að stjórnvöld í Ísrael munu aldrei samþykkja tilveru sjálfstæðrar Palestínu. Þessi málefni hafa fulltrúar BNA rætt í áratugi og niðurstaðan alltaf sú sama - Ísrael heldur áfram að ræna landi og myrða Palestínumenn án viðurlaga - með fullum stuðningi Bandaríkjanna óháð því hver situr í Hvíta húsinu.

Það sem Biden ræddi ekki í ávörpum sínum er þó töluvert áhugaverðara:

Hann ræddi ekki um morð Ísraelshers á blaðakonunni Abu Akleh sem er bandarískur ríkisborgari. Þar fylgir hann stefnu forvera sinna í embætti - sem aldrei ræddu morð Ísraelshers á bandarísku baráttukonunni Rachel Corrie.

Biden ræddi ekki nýlegar skýrslur fjölda mannréttindasamtaka um aðskilnaðarstefnu Ísraels - stefna sem er ólögleg skv. samþykktum Sameinuðu þjóðanna.

Allar ræður Bidens um mannréttindi, hvort sem er í Úkraínu eða Palestínu, eru blekking

Boðskapur Bidens er hinn sami og aðrir forsetar BNA hafa flutt Palestínumönnum í áratugi: Ísrael hefur allan rétt en þið engan.

Heildarniðurstaðan er endurtekin réttlæting Bandaríkjastjórnar á glæpum Ísraels og staðfesting á þeirri stefnu Bandaríkjanna að styðja ofbeldið með vopnum og fjárframlögum auk stuðnings á vettvangi alþjóðasamtaka þegar Ísrael brýtur reglur og lög sem krafist er að öll ríki framfylgi.

Rúsínan í pylsuendanum var svo yfirlýsing Bidens um að hann væri sjálfur síonisti: „Ég sagði og ég segi aftur, þú þarft ekki að vera gyðingur til að vera síonisti“.

Höfundur er formaður Félagsins Ísland - Palestína.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×