Innlent

Ekki opnað aftur fyrir bíla­um­ferð um Rauðar­ár­stíg við Hlemm

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lokað verður fyrir almenna umferð um Rauðarárstíg milli Laugavegar og Gasstöðvarinnar þegar framkvæmdum lýkur.
Lokað verður fyrir almenna umferð um Rauðarárstíg milli Laugavegar og Gasstöðvarinnar þegar framkvæmdum lýkur. Vísir/Samsett

Framkvæmdir á fyrsta áfanga Hlemmtorgsins svokallaða á Rauðarárstíg eru hafnar. Formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar segir markmiðið að gera nýtt torg að svæði fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við endurgerð lagna og yfirborðs göturýmis frá Bríetartúni að Gasstöðinni á Hlemmi ljúki vorið 2023. Þetta er þó aðeins fyrsti kaflinn í framkvæmdum á nýju torgi á Hlemmi.

„Nú erum við að tala um framkvæmdir á Rauðarárstíg og einhverju leyti við Laugaveg sem eru hluti af því að innleiða nýtt deiliskipulag fyrir Hlemm,“ segir Alexandra Briem formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Hér má sjá breytingar sem fyrirhugaðar eru á Rauðarárstíg við gatnamót Bríetartúns. Vegurinn verður lokaður við Hlemm, þar sem bílastæði verða fyrir fatlaða og hringtorg fyrir umferð til að snúa við.VSÓ ráðgjöf

„Þar er stóra hugmyndin að hætta að vera með almenna bílaumferð á Hlemmsvæðinu og breyta þessu í torg fyrir hjólandi og gangandi, sem er stefnan með þetta svæði.“

Gatnamót við Bríetartún verða upphækkuð og akstursrými afmarkað. Þá er gert ráð fyrir að Rauðarárstíg verði lokað til suðurs við Gasstöðina á Hlemmi.

„Þar verða sett upp stæði fyrir fólk með fötlun, þar verða sett upp hleðslustæði og þar verður komið fyrir stæðum fyrir leigubíla að bíða,“ segir Alexandra.

„Þetta er í sjálfu séð varanleg breyting, það verður ekki opnað aftur á almenna bílaumferð um Hlemmstorgið þessa leið.“

Gera megi ráð fyrir nokkru raski af framkvæmdunum þar sem töluverð klöpp er í Rauðarárstíg. Gert er ráð fyrir hávaða af bæði sprengingum og fleygun á vinnutíma í um þrjá mánuði. Þá verði einhverjar breytingar gerðar á akstursleið Strætó um svæðið.

„Það verða breytingar í því hvernig Strætó kemur að Hlemmi, því verður eitthvað aðeins breytt, og það þarf eitthvað að hreyfast til eftir því hvernig framkvæmdir verða á þessu svæði. Endanleg niðurstaða verður öðruvísi útfærð þó endanleg niðurstaða verður auðvitað að Hlemmur verði áfram svona miðstöð,“ segir Alexandra.


Tengdar fréttir

Hefjast handa við fyrsta á­fanga Hlemm­torgs

Framkvæmdir á fyrsta áfanga Hlemmtorgsins svokallaða á Rauðarárstíg eru hafnar. Lokað hefur verið fyrir umferð á Rauðarárstíg frá Bríetartúni og þegar framkvæmdum lýkur verður vegurinn lokaður sunnan gömlu gasstöðvarinnar við Hlemm til frambúðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×