Innlent

Allt fullt við höfnina og þurftu að kasta akkeri á Pollinum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skipin þrjú sjást hér öll saman. Tvö við bryggju og eitt á Pollinum.
Skipin þrjú sjást hér öll saman. Tvö við bryggju og eitt á Pollinum. Vísir/Bjarki

Þrjú skemmtiferðaskip höfðu boðað komu sína á Akureyri í dag en aðeins var pláss fyrir tvö þeirra við bryggjuna. Því þurfti eitt skipið að kasta akkeri á Pollinum.

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri hjá Hafnarsamlagi Norðurlands, segir í samtali við fréttastofu að oftast væri hægt að hafa þrjú skemmtiferðaskip í höfninni en þar sem skipin sem komu í dag séu í stærri kantinum hafi eitt þurft að víkja. Starfsmenn skipsins ákváðu að hafa það úti á Polli frekar en að sleppa Akureyri alfarið. 

Tvö stærðarinnar skip voru við Akureyrarbryggju í dag.Vísir/Bjarki

„Skipafélögin eru að bóka með margra ára fyrirvara, tveggja ára fyrirvari er mjög algengur. Það má eiginlega segja að það sé fyrstur kemur fyrstur fær, en auðvitað þarf aðeins að pússa þetta þegar allar bókanirnar eru komnar,“ segir Pétur.

Skipin tvö sem lögðu við höfnina í dag heita Mein Schiff 4 og Viking Jupiter og það sem kastaði akkeri á Pollinum heitir Carnival Pride. Samanlagður hámarksfjöldi farþega í skipunum þremur er 5.560 manns. Í sumar hafa skemmtiferðaskip verið með sextíu til sjötíu prósenta bókunarhlutfall og því má gera ráð fyrir að um 3.600 farþegar hafi heimsótt Akureyri í dag.

Farþegum Carnival Pride var komið til lands með minni bátum.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×