Innlent

Rann­sóknar­vinna fyrir fyrstu lotu Borgar­línu hafin

Árni Sæberg skrifar
Starfsfólk verkfræðistofunnar Hnit tekur jarðvegssýni.
Starfsfólk verkfræðistofunnar Hnit tekur jarðvegssýni. Vegagerðin

Vegagerðin vinnur nú að jarðvegsrannsóknum og burðarþolsmælingum á höfuðborgarsvæðinu á þeim stöðum þar sem sérrými fyrstu lotu Borgarlínunnar kemur til með að liggja.

Þá hafa jarðsjármælingar verið framkvæmdar til að athuga hvað leynist undir yfirborðinu, svo sem lagnir og eldri mannvirki sem óvíst er með staðsetningu á. Þetta segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

„Undanfarnar vikur höfum við verið að bora og taka jarðvegssýni á þeim stöðum þar sem fyrsta lota Borgarlínunnar kemur til með að liggja. Jarðvegssýnin eru síðan rannsökuð á rannsóknarstofu og gerð á þeim viðeigandi próf. Auk sýnatöku eru framkvæmd svokölluð CPT-próf sem gefa upplýsingar um jarðveginn á staðnum. Með þessu móti fæst góð mynd af því hvernig jarðvegurinn er samsettur. Einnig snúast þessar boranir um að finna hvar komið er niður á fastan botn í jarðlögunum á höfuðborgarsvæðinu, en það er mikilvægt til að geta komið í veg fyrir að jarðvegurinn fari að síga síðar meir,“ er haft eftir Sverri Örvari Sverrissyni, verkefnastjóri á Mannvirkjasviði Vegagerðarinnar.

Þá hafa burðarþolsmælingar verið mældar með falllóðsmælitæki í eigu Vegagerðarinnar. Mælt er á fimmtíu metra bili og aðeins þéttar í kringum gatnamót, að sögn Sverris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×