Innlent

Hópárás og árás með glasi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti mörgum útköllum vegna líkamsárása í nótt, meðal annars í Seljahverfi, þar sem hópur manna réðist gegn einum með þeim afleiðingum að hann hlaut minniháttar höfuðáverka.

Tilkynningin barst um klukkan 20 í gærkvöldi en aðeins um tíu mínútum áður barst önnur tilkynning um líkamsárás og hótana í póstnúmerinu 203. Þá segir í dagbók lögreglu að aðstoðar hafi einnig verið óskað vegna líkamsárásar í tvö önnur skipti, annars vegar í miðborginni og hins vegar í Hlíðunum.

Seinna um nóttina var lögregla síðan kölluð til í Hafnarfirði, þar sem einn var handtekinn en sá er grunaður um að hafa barið mann í andlitið með glasi. Í Hafnarfirðinum var einnig óskað aðstoðar vegna hótana og eignaspjalla og einn handtekinn í tengslum við það mál.

Lögreglu bárust einnig tvær tilkynningar um þjófnað í verslun í gærkvöldi og nótt. Í öðru tilvikinu reyndist þjófurinn vera undir sakhæfisaldri og verður tilkynning send barnaverndarnefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×