Erlent

Taldi að Abe tengdist trúar­hópi sem keyrði móður hans í gjald­þrot

Árni Sæberg skrifar
Mynd af því þegar Tetsuya Yamagami, sem veittist að Abe og skaut hann í bakið, er tæklaður í jörðina.
Mynd af því þegar Tetsuya Yamagami, sem veittist að Abe og skaut hann í bakið, er tæklaður í jörðina. AP/Katsuhiko Hirano

Maðurinn sem skaut fyrrverandi forsætisráðherra Japans til bana á aðfaranótt föstudags er sagður hafa sagt lögreglu að hann hefði skipulagt árásina í marga mánuði vegna þess að hann teldi að forsætisráðherran tengdist trúarhópi, sem hann segir hafa keyrt móður hans í gjaldþrot.

Japanskir miðlar hafa eftir heimildarmönnum sínum innan lögreglunnar að Tetsuya Yamagami, maðurinn sem myrti Shinzo Abe, hafi gefið upp ástæðu sína fyrir morðinu. „Móðir mín flæktist inn í trúarhóp og mér misbauð það,“ er haft eftir honum.

Hann á að hafa sagt að móðir hans hafi orðið gjaldþrota eftir að hafa gefið trúarhópnum háar fjárhæðir. Fjölmiðlar hafa ekki nefnt trúarhópinn og lögreglan í Japan hefur ekki staðfest frásagnir þeirra.

Þá hefur Reuters eftir nágrönnum Yamagamis að hann hafi verið einfari sem svaraði ekki þegar honum var heilsað. Hann hafi enn fremur verið atvinnulaus síðan í maí en fyrrverandi yfirmaður hans í verksmiðju hafi sagt að hann hefði sjálfur óskað eftir því að láta af störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×