Fótbolti

Blatter og Platini sýknaðir af ásökunum um spillingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sepp Blatter og Michel Platini hafa verið sýknaðir af ásökunum um spillingu.
Sepp Blatter og Michel Platini hafa verið sýknaðir af ásökunum um spillingu. Shaun Botterill/Getty Images

Sepp Blatter, fyrrverandi forseti FIFA, og Michel Platini, fyrrverandi forseti UEFA, hafa verið sýknaðir af ásökunum um spillingu, en dómurinn var kveðinn upp í Sviss í morgun.

Blatter, sem var forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA í 17 ár, var sýknaður af ásökunum um fjársvik og fleiri brot af alríkisglæpadómstólnum í svissnesku borginni Bellinzona.

Platini, fyrrum forseti evrópska knattspyrnusambandsins UEFA og varaforseti FIFA, var einnig sýknaður.

Árið 2019 hóf FIFA málsókn gegn þeim Blatter og Platini þar sem markmið málsóknarinnar er að endurheimta peningana sem Michel Platini fékk „undir borðið“ frá Sepp Blatter í janúar árið 2011.

Um var að ræða tvær milljónir svissneska franka sem Platini fékk inn á reikninginn sinn, sem samsvaraði um 250 milljónum íslenskra króna. Báðir voru dæmdir sekir fyrir mútur í þessu máli og misstu háttsetta stöðu sína innan fótboltaheimsins.

Báðir höfðu þeir neitað ásökunum og sagt að millifærslan hafi verið greiðsla fyrir ráðgjafavinnu Platinis fyrir FIFA.

„Ég er ekki saklaus í mínu lífi, en í þessu máli er ég saklaus,“ sagði Blatter við komu sína í dómshúsið í morgun.

Blatter var forseti FIFA í 17 ár áður en hann var rekinn árið 2015. Platini var við stjórnvölin hjá UEFA í átta ár áður en hann yfirgaf stöðu sína sama dag og kollegi sinn.


Tengdar fréttir

Blatter og Platini ákærðir í Sviss

Sepp Blatter og Michel Platini, fyrrverandi forsetar FIFA og UEFA, hafa verið ákærðir af saksóknurum í Sviss. Ákvörðun um að ákæra þá byggir á sex ára rannsókn á greiðslu tveggja milljóna svissneskra franka frá FIFA til Platini.

Hefja rannsókn á forseta FIFA í Sviss

Sérstakur saksóknari í Sviss hefur hafið rannsókn á máli Gianni Infantino, forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA). Vísbendingar eru sagðar hafa fundist um glæpsamlegt athæfi í umdeildum samskiptum Infantino við ríkissaksóknara Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×