Innlent

Hættur í Vogum eftir rúm tíu ár

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ásgeir hefur ákveðið að segja það gott eftir ellefu ár hjá Vogum.
Ásgeir hefur ákveðið að segja það gott eftir ellefu ár hjá Vogum. Vísir/Arnar

Ásgeir Eiríksson, fráfarandi bæjarstjóri Voga á Vatnsleysuströnd, hefur ákveðið að segja það gott eftir ellefu ár í starfinu. Sveitarfélagið auglýsir nú eftir nýjum bæjarstjóra til að leiða „áframhaldandi uppbyggingu í ört stækkandi sveitarfélagi.“

Ásgeir hefur verið bæjarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd frá árslokum 2011 eða í tæp ellefu ár. Þegar blaðamaður hringdi í Ásgeir var hann staddur á mótorhjólaferðalagi í Frakklandi en staðfesti að hann væri að hætta.

„Ég ákvað að hætta. Ég er orðinn 67 ára og þetta er orðið fínt,“ sagði Ásgeir við blaðamann. Þá sagði hann að fyrir síðustu kosningar hafi hann sagt strax að hann hefði ekki áhuga á að sækjast eftir starfinu.

Í fyrra var Ásgeir gagnrýndur af nokkrum íbúum Voga fyrir að hafa flutt úr sveitarfélaginu í Kópavog. Hann gaf lítið fyrir þá gagngrýni enda hefði ákvörðunin verið tekin í fullu samráði við yfirmenn og hann keyrði daglega til Voga.

Leitað að kraftmiklum aðila

Auglýsingu sveitarfélagsins má sjá inni á Hagvangi. Þar er leitað að kraftmiklum aðila með farsæla reynslu af stjórnun og rekstri og sóknarhug í atvinnumálum. Í auglýsingunni segir að framundan sé mikil uppbygging, þar á meðal á nýju hverfi sem muni tvöfalda íbúafjölda sveitarfélagsins. 

Eftir síðustu kosningar mynduðu Sjálfstæðisflokkur og E-listinn saman meirihluta í Vogum. Báðir listar fengu þrjá kjörna fulltrúa og eru því með sex manna meirihluta í sjö manna bæjarstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×