Innlent

VG tapa enn fylgi og mælast með 7,2 prósent

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Flokkur Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hefur tapað fylgi jafnt og þétt frá síðustu alþingiskosningum.
Flokkur Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hefur tapað fylgi jafnt og þétt frá síðustu alþingiskosningum. Vísir/Vilhelm

Vinstri græn mælast með 7,2 prósenta fylgi samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallúp. Flokkurinn fékk 12,6 prósenta fylgi í síðustu alþingiskosningum en fylgið hefur minnkað jafnt og þétt síðan þá. 

RÚV greindi fyrst frá nýjum Þjóðarpúlsi Gallúp í kvöld en þar kemur einnig fram að hinir ríkisstjórnarflokkarnir, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur virðast nokkurn veginn halda í við fylgi sitt frá alþingiskosningum í september. Framsókn fengi 17,5 prósent ef kosið yrði í dag og Sjálfstæðisflokkur tæplega 23 prósent. 

Af stjórnarandstöðuflokkum hafa Píratar bætt mestu fylgi við sig og mælast nú með 16,1 prósent en fengu 8,6 prósent í síðustu kosningum. Þá bætir Samfylkingin við sig um fjórum prósentum frá síðustu kosningum og mælist með 13,7 prósenta fylgi. 

Flokkur fólksins tapar nokkru fylgi en mælist með 7 prósent atvkæða. Sömu sögu er að segja um Viðreisn sem mælist nú með 6,7 prósent.

Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er 47,5 prósent en stuðningur við ríkisstjórnina 49 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×