Sport

Rapin­oe og Biles fá Frelsis­orðu Banda­ríkja­for­seta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Megan Rapinoe hefur átt frábæran feril, bæði innan vallar sem utan.
Megan Rapinoe hefur átt frábæran feril, bæði innan vallar sem utan. Erin Chang/Getty Images

Hvíta húsið tilkynnti í dag að knattspyrnukonan Megan Rapinoe yrði meðal þeirra sem myndi fá Frelsisorðu Bandaríkjaforseta. Fimleikadrottningin Simone Biles verður einnig meðal þeirra sem hlotnast sá heiður að þessu sinni.

Í næstu viku mun Joe Biden, Bandaríkjaforseti, heiðra vel valda einstaklinga í Hvíta húsinu. Alls munu 17 einstaklingar fá hina svokölluðu Frelsisorðu (e. Presidential Medal of Freedom).

Hin 36 ára gamla Rapinoe hefur barist ötullega fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín. Hefur hún barist fyrir því að kvennalandslið Bandaríkjanna fái sömu laun og leikmenn karlaliðsins. Þá hefur hún barist gegn kynþáttafordómum og réttindum LGBTQIA+ fólks.

Ásamt því hefur Rapinoe átt ótrúlegan feril á knattspyrnuvellinum og til að mynda tvisvar orðið heimsmeistari og einu sinni Ólympíumeistari. Hún verður fyrst allra knattspyrnumanna, karla eða kvenna, sem hlýtur Frelsisorðu Bandaríkjaforseta.

Hin 25 ára gamla Biles er ein albesta – ef ekki sú besta – fimleikakona allra tíma. Engin hefur unnið til fleiri verðlauna en hún. Alls vann Biles til 32 verðlauna á Ólympíuleikum og heimsmeistarakeppnum.

Hún er einnig dugleg að láta til sín taka er kemur að málefnum þeirra sem minna mega sín. Þá sérstaklega er varðar málefni sem standa henni nærri. Má þar nefna andlega vellíðan íþróttafólks, fósturbörn og þolendur kynferðisofbeldis.

Simone Biles er engri lík.Laurence Griffiths/Getty Images

„Þau 17 sem tilnefnd eru hafa öll yfirstigið miklar hindranir á lífsleið sinni og hafa keyrt í gegn breytingar í samfélögum sínum sem og heiminum öllum. Hafa þau rautt leiðina fyrir okkur hin,“ segir í yfirlýsingu Hvíta hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×