Formúla 1

Alpine stefnir á að finna konur til að keppa í Formúlu 1

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Amna Al Qubaisi, keyrir fyrir Abu-Dhabi racing team í í Formúlu 4. Alpine stefnir á að koma konum í Formúlu 1 á næstu árum.
Amna Al Qubaisi, keyrir fyrir Abu-Dhabi racing team í í Formúlu 4. Alpine stefnir á að koma konum í Formúlu 1 á næstu árum. Guido De Bortoli/Getty Images for Kaspersky

Franska Formúlu-liðið Alpine hefur sett af stað verkefni sem ætlað er að finna konur sem gætu orðið samkeppnishæfir ökuþórar í Formúlu 1 á næstu átta árum.

Franski bílaframleiðandinn vill með þessu brjóta niður þær staðalímyndir um að konur geti ekki keppt í Formúlu 1, en þetta er hluti af áætlun fyrirtækisins um að auka fjölbreytni innan þess.

Laurent Rossi, forstjóri Alpine, segir að Formúla 1 sé spennandi íþrótt sem krefjist sérstakra hæfileika og að konur ættu alveg að geta náð jafn langt og karlarnir hafa gert hingað til.

„Það er ekki séns að konur geti þetta ekki,“ sagði Rossi. „Þetta er löng leið. Átta ára prógram sem hefst núna. Fyrstu fjórar eða fimm stelpurnar munu byrja að keyra Go-kart bíla á næstu vikum.“

Þetta verkefni Alpine-liðsins mun gefa strákum og stelpum niður í tíu ára aldur sömu tækifæri til að ná langt í akstursíþróttum og til að vinna sig svo alla leið upp í Formúlu 1.

Fyrirtækið mun á næstu misserum hefja rannsókn til að komast að því hvaða líkamlegu, vitrænu og tilfinningalegu þætti ökumaður í Formúlu 1 þarf að búa yfir til að komast langt í íþróttinni. Fernando Alonso og Esteban Ocon, núverandi ökumenn liðsins, munu ganga í gegnum líkamleg og sálræn próf til að gefa rannsóknarteyminu ákveðna mynd af því.

„Við göngum svo langt að segja að við höldum að við getum breytt þeim staðalímyndum sem eru til staðar um konur í Formúli 1,“ bætti Rossi við.

„Við viljum brjóta þessar staðalímyndir niður; að konur séu ekki nógu líkamlega sterkar,  að konur séu of tilfinninganæmar og að það séu engar fyrirmyndir.“

„Hugmyndin er að byrja á byrjunarreit og ganga úr skugga um að við vísum þeim rétta leið, eins og við höfum gert fyrir strákana. Ég er viss um að ef við gerum það þá munum við margfalda líkurnar á því að konur nái langt,“ sagði Rossi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×