Eftir að hafa átt frábæra tíma í atvinnumennsku undanfarin ár, og slegið í gegn í Svíþjóð, Litháen og Belgíu, gekk Elvar til liðs við ítalska liðið Derthona í byrjun apríl.
Þar vann hann sér inn samning sem gildir út næstu leiktíð en Elvar segir engu að síður ljóst að hann fari frá Derthona í sumar.
„Ég er á lausu núna og er bara að leita mér að nýju liði,“ sagði Elvar í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason í Sportpakkanum á Stöð 2.
Elvar, sem er lykilmaður í íslenska landsliðinu, staldraði því stutt við hjá Derthona:
„Ég fór þangað sem „sjöundi“ útlendingur og það mega bara sex útlendingar spila. Ég fór því þangað eiginlega sem aukamaður, með von um að fá samning fyrir næsta tímabil sem varð raunin. Ég er því með samning en svo er komin einhver óvissa í það. Þessir tveir mánuðir fóru bara í það að tryggja mig fyrir næsta ár en svo er það ekki að ganga upp og þá má alveg deila um hvort þetta hafi verið rétt skref eða ekki. Það verður bara að koma í ljós,“ sagði Elvar.