Handbolti

Segja af sér og lýsa yfir vantrausti á aðalstjórn ÍBV

Sindri Sverrisson skrifar
ÍBV á lið í efstu deildum karla og kvenna, bæði í handbolta og fótbolta.
ÍBV á lið í efstu deildum karla og kvenna, bæði í handbolta og fótbolta. vísir/Óskar Pétur

Stjórn handknattleiksdeildar ÍBV hefur lýst yfir vantrausti á aðalstjórn félagsins og séð sig tilneydda að segja af sér störfum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá handknattleiksdeildinni sem formaðurinn Grétar Þór Eyþórsson, fyrrverandi leikmaður ÍBV, skrifar undir og birtist í bæjarfjölmiðlinum Tígli.

Ástæðan fyrir óánægju handknattleiksdeildarinnar er, samkvæmt yfirlýsingunni, ákvörðun aðalstjórnar ÍBV þann 15. mars síðastliðinn um breytingar „við gerð heildarsamninga og úthlutun á fé frá aðalstjórn og þá þannig að knattspyrnudeild skyldi fá 65% og handknattleiksdeild 35%.

Áður hafi, alla tíð, verið úthlutað jafnt til deildanna tveggja.

„Þegar að aðlstjórn tók framangreinda ákvörðun þá voru í gildi reglur um jafna skiptingu milli deilda og liggur fyrir að aðalstjórn þekkti ekki til þeirra reglna þegar að ákvörðunin var tekin,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá telur handknattleiksdeildin reglur ÍBV þverbrotnar með því að ákvörðunin skuli ekki hafa verið lögð fyrir fulltrúaráð félagsins áður en hún var tekin.

„Við í handknattleiksráði ÍBV íþróttafélags höfum og viljum leggja á okkur ómælda vinnu fyrir félagið. Það gerum við á grundvelli jafnræðis, allt frá stofnun ÍBV íþróttafélags. Nú hefur aðalstjórn breytt grundvelli félagsins. Við í handknattleiksráði sættum okkur ekki við að mæta til vinnu fyrir félagið á öðrum forsendum en jafnræði og segjum því af okkur störfum í handknattleiksráði ÍBV íþróttafélags,“ segir í yfirlýsingunni.

Þór Vilhjálmsson, formaður aðalstjórnar ÍBV, vildi ekki tjá sig þegar Vísir hafði samband en sagði að von væri á yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×