Í tilkynningu segir að EFLA hafi á undanförnum árum skapað sér sess sem alhliða þekkingarfyrirtæki og unnið markvert starf við að koma hugviti sínu og vörum á framfæri erlendis. EFLA er nú stærsta verkfræðistofa Íslands og hefur tekist að marka sér spor sem þekkingarfyrirtæki á heimsvísu.
Samhliða afhendingu Útflutningsverðlaunanna var Víkingi Heiðari, píanóleikara, veitt heiðursviðurkenning fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grundu. Meðal fyrri verðlaunahafa eru m.a. Baltasar Kormákur, frú Vigdís Finnbogadóttir, Arnaldur Indriðason og Björk.
Víkingur Heiðar er einn fremsti píanóleikari landsins en undanfarin 10 ár hefur stjarna hans risið hratt á erlendri grundu og hefur hann unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna og var meðal annars valinn listamaður ársins hjá Gramophone-tímaritinu árið 2019 auk þess að hljóta verðlaun fyrir plötu ársins hjá BBC Music Magazine sama ár.
Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 34. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Íslensk erfðagreining, Icelandair, Nox Medical, Bláa lónið og Lýsi hf, og á síðasta ári hlaut Controlant verðlaunin.