Tyrkir samþykktu í kvöld aðildarumsókn Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu en Tyrkir hafa hingað til staðið í vegi fyrir inngöngu Svía vegna tengsla þeirra við Kúrda. Leiðtogafundur NATO hófst formlega í Madríd í dag þar sem meðal annars verður samþykkt að auka umsvif bandalagsins í austur Evrópu.
Þórdís Kolbrún segir daginn sögulegan fyrir NATO á Twitter síðu sinni. Þar deilir hún tísti frá Jens Stoltenberg, framkvæmdarstjóra NATO, sem þakkar leiðtogum ríkjanna þriggja, Tyrklands, Finnlands og Svíþjóðar fyrir að gera inngönguna mögulega.
Historic day for @NATO today. Immensely pleased that obstacles to #Finland & #Sweden accession to @NATO have been removed. They will be welcome and strong allies. With them on board the Alliance will be even stronger & safer. #WeAreNATO https://t.co/z8aoc9vZOf
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) June 28, 2022
Þórdís Kolbrún er viðstödd fundinn ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Þórdís hafði áður sagt það óviðeigandi af Tyrkjum að setja ótengd mál á dagskrá vegna umsóknar Svía og Finna að bandalaginu en gerði ráð fyrir að málið yrði leyst.
Síðasta ríki sem gekk NATO á hönd er Norður-Makedónía árið 2020. Með inngöngu Svía og Finna verða ríki innan NATO alls 32 talsins.