Fréttamenn AP-fréttastofunnar sáu slökkvi- og björgunarlið glíma við eld og bjarga óbreyttum borgurum í morgun. Vitali Klitsjkó, borgarstjóri, segir að tveir hafi verið fluttir á sjúkrahús og að sjö ára stúlku hafi verið bjargað lifandi úr rústunum.
Oleksíj Gontsjarenko, úkraínskur þingmaður, skrifaði á samfélagsmiðilinn Telegram að bráðabirgðaupplýsingar bendi til þess að Rússar hafi skotið fjórtán eldflaugum á Kænugarð og umlykjandi hérað. Þetta eru fyrstu loftárásir Rússa á höfuðborgina frá 5. júní.
Rússar reyna nú að ganga á lagið í austurhluta landsins eftir að úkraínski herinn gaf borgina Sjevjerodonetsk upp á bátinn. Reyna þeir nú að fella síðustu vígi Úkraínumanna í Luhans-héraði, þar á meðal með linnulausum loftárásum á nágrannaborgina Lysjansk.
„Það er mikil eyðilegging, Lysjansk er nærri því óþekkjanleg,“ skrifaði Serhíj Haidai, héraðsstjóri Luhansk, á Facebook.
Haidai staðfesti í gær að Sjeverjodonetsk væri fallin í hendur rússneska hersins og uppreisnarmanna. Þeir reyndu nú að slá upp herkví um Lysjansk úr suðri.