Trausti Breiðfjörð Magnússon, borgarfulltrúi Sósíalista, er nýkominn frá Helsinki þar sem hann sótti ráðstefnu um húsnæðismál.
„Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar ég fer út og heimsæki og skoða borgir hvað það er margt sem hægt er að læra af öðrum löndum.“
Borgaryfirvöld í Helsinki hafa aukið hlutfall félagslegs húsnæðis vegna fasteignaverðs sem hefur verið á fleygiferð þar eins og annars staðar í Evrópu. „Húsnæðisverð er orðið svo hátt að bara örfáir hafa efni á því.“
Í Helsinki sé hlutfall félagslegs húsnæðis mun hærra en í Reykjavík.
„Það er að rokka hlutfallið en það er á bilinu 19-25%. Það fer eftir hvernig maður skilgreinir sem er félagslegt húsnæði. Í Reykjavík er þetta undir 5%. Við erum bara á pari við lönd eins og Bandaríkin og Spán.“
Ekki aðeins þau sem hafa minnst á milli handanna komast inn á félagslegan húsnæðismarkað. Skilyrðin eru mun víðari í Helsinki.
„Við lítum svo á að það sé algjörlega nauðsynlegt að fara að víkkaút þessi skilyrði í borginni því það er svo margt fólk sem er fast á mjög miskunnarlausum leigumarkaði þar sem 90% fólks vill ekki vera á. Það er svolítið sérstakt þegar fólk talar um frjálsan markað því mér finnst ekki vera mikið frelsi í þessu.“
Heimilislausir hafa forgang enda hafa Finnar einsett sér að binda enda á heimilisleysi á tveimur kjörtímabilum.
„Svo er unnið smám saman upp eftir tekjum en þetta endar á því að þetta er orðið mun breiðari hópur kemst inn því það er svo hátt hlutfall af félagslegu húsnæði. Það er forgangsraðað eftir neyð fólks en það segir sig sjálft ef við erum, eins og hérna í Reykjavík, með undir 5% félagslegt húsnæði að þá eru ofsalega fáir sem komast inn og það er fólkið sem er í allra, allra mestu neyðinni sem er náttúrulega mjög mikilvægt að fái húsnæði en það eru svo margir aðrir sem eru skildir eftir þegar hlutfallið er svona lágt.“