Körfubolti

Gætu sam­einað krafta sína á nýjan leik í von um að steypa Stríðs­mönnunum af stóli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gætu þessir tveir leikið saman í gulu á næstu leiktíð?
Gætu þessir tveir leikið saman í gulu á næstu leiktíð? Mike Stobe/Getty Images

Kyrie Irving, leikstjórnandi Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta, virðist vera að hugsa sér til hreyfings. Hefur Los Angeles Lakers verið nefnt til sögunnar en það þýðir að Kyrie og Lebron James gætu endurtekið söguna og steypt Golden State Warriors af stóli.

Kyrie Irving og LeBron James skráðu sig saman í sögubækurnar þegar þeir fóru fyrir liði Cleveland Cavaliers árið 2016. Liðið var 1-3 undir gegn Golden State Warriors í úrslitum NBA-deildarinnar en kom á einhvern ótrúlegan hátt til baka og vann meistaratitilinn eftir þrjá sigra í röð. 

Ári síðar var liðið í úrslitum á nýjan leik en þá hefndi Golden State fyrir tapið ári áður. Í kjölfarið ákvað Kyrie að hann vildi yfirgefa Cavaliers. Fór hann til Boston Celtics sumarið 2017 og svo Brooklyn Nets tveimur árum síðar.

Þó svo að Irving hafi sagt í apríl á þessu ári að hann væri ekki að fara fet virðist nú vera komið annað hljóð í skrokkinn. Samningur Kyrie við Nets rennur út 29. júní næstkomandi og sem stendur virðast litlar sem engar líkur á að því að hann verði leikmaður liðsins á næstu leiktíð. 

Aðallega hafa þrjú lið verið nefnd til sögunnar sem næsti áfangastaður leikstjórnandans sérvitra. Um er að ræða Los Angeles liðin tvö og svo New York Knicks.

Án þess að fara of djúpt í samninga NBA-deildarinnar og hvernig hægt er að skipta leikmönnum milli félaga er ljóst að Lakers getur aðeins fengið Irving í sínar raðir ef hann semur við Nets og lætur svo skipta sér til Englaborgarinnar.

Það virðist vera raunhæfur möguleiki og því gætu LeBron og Kyrie, ásamt Anthony Davis, gert atlögu að Golden State Warriors. Það er ef allir haldast heilir og veirulausir.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×