Hin nýja þjónusta fer fram á Sólvangi Heilsusetri í Hafnarfirði og opnar þann 1. september n.k.. Starfsemin var kynnt í dag og fulltrúar frá Sjúkratryggingum Íslands, heilbrigðisráðherra og Sóltúni skrifuðu undir samstarfssamning.
„Fólk kemur til okkar í endurhæfingu í stað þess að fara á Landspítalann og svo fer það aftur heim. Þá kemur fólk líka frá Landspítalanum, því hann kemur til með að geta innskrifað fólk til okkar . Þá koma einstaklingar sem eru búnir að fá meðferð á spítalanum en eru ekki alveg tilbúnir að fara aftur heim. Við aðstoðum því fólk á þann stað að það sé hæft til að búa aftur heima,“ segir Ingibjörg Eyþórsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Sóltúni.
Sjúkratryggingar Íslands leggja þjónustunni til um sex hundruð milljónir á ári og er búist við að heilsusetrið muni geta tekið á móti og útskrifað allt að 400 manns á hverju ári. Húsnæðið hefur verið endurnýjað en það er Hafnarfjarðarbær sem útvegar það en um er að ræða efstu hæðina á Sólvangi í Hafnarfirði. Þá eru t.d. húsgögnin í rýminu hönnuð með þarfir aldraðra í huga. Til að mynda eru sérstakir hnúðar á örmum húsgagna svo auðveldar sé fyrir fólk að halda í þegar það stendur upp.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra er ánægður með þessa nýju þjónustu.
„Þetta eru nýmæli í heilbrigðisþjónustu af þessum toga. Hér er kominn þessi sértæki stuðningur í endurhæfingu. Fyrir þann aldur sem þarf kannski sértækari þjálfunarúrræði en aðrir hópar,“ segir Willum.
Heilbrigðisráðherra vona að þetta sé bara byrjunin.
„Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þetta er eitthvað sem við viljum gera meira af til að geta mætt áskorunum framtíðarinnar,“ segir Willum Þór.