Samkvæmt Ásgrími Ásgrímssyni, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, komst Baldur að ferjubryggju á eigin vélarafli og með aðstoð björgunarskipsins Bjargar frá Rifi.
„Þannig að þeir eru nú komnir í öruggt skjól og mannskapurinn í land og allar aðrar einingar hafa verið kallaðar af svæðinu. Þetta fór því blessunarlega bara vel,“ segir Ásgrímur í samtali við fréttastofu.
Melding frá Baldri um vélarbilun barst landhelgisgæslunni um hálf tíu í morgun.
„Þeir létu akkerið fara og það hélt. Mér skilst að þeir hafi ekki getað kúplað saman þannig að skrúfan færi að snúast. Svo komst það í lag en þá áttu þeir í vandræðum með að ná akkerinu upp. Eftir að ná akkerinu upp náðu þeir ekki upp mikilli ferð á skipið og þar af leiðandi voru stjórntökin takmörkuð.“
Björgunarskipið Björg frá Rifi var því fengið til að fara utan á Baldur til að aðstoða með stjórntökin. Ásgrímur segir æfingar á Björgu hafa tekið nokkurn tíma fyrir utan Stykkishólm.
„Á meðan héldum við öllum öðrum viðbrögðum í gangi, þyrlan var klár, varðskipið Þór var á leiðinni vestur, Björgunarsveitin í landi og aðgerðarstjórnin á Snæfellsnesi. Þetta var allt klárt og við léttum þessu ekki fyrr en skipið var bundið við bryggju í Stykkishólmi.“
Baldur hafi verið bundinn við bryggju klukkan 15:07.