Lífið

Euro­vision fer ekki fram í Úkraínu og Bretar beðnir að hlaupa í skarðið

Árni Sæberg skrifar
Kalush-hljómsveitin frá Úkraínu sem kom, sá og sigraði á úrslitakvöldi Eurovision á Ítalíu í maí.
Kalush-hljómsveitin frá Úkraínu sem kom, sá og sigraði á úrslitakvöldi Eurovision á Ítalíu í maí. AP/Luca Bruno

Skipuleggjendur söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hafa ákveðið að Úkraína geti ekki haldið keppnina sökum stríðsástands í landinu. Því hafa þeir beðið Bretland um að halda keppnina en framlag þeirra í ár endaði í öðru sæti.

Kalush orchestra vann Eurovision í ár fyrir hönd Úkraínu með heil 631 stig. Venju samkvæmt ætti keppnin á næsta ári því að fara fram í Úkraínu. Þegar Úkraína vann sagði Selenskí Úkraínuforseti að hann vonaðist til þess að keppnin gæti farið fram í landinu þrátt fyrir innrás Rússa.

Nú hafa skipuleggjendur keppninnar hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði unnt að tryggja öryggi og keppnin geti því ekki farið fram í Úkraínu, að því er segir í frétt The Guardian um málið.

„Eurovision er ein flóknasta sjónvarpsframleiðsla í heiminum. Þúsundir manna koma að henni og sækja hana og tólf mánaða undirbúningstími er nauðsynlegur,“ segir í tilkynningu frá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva.

Þá segir að í kjölfar ákvörðunarinnar verði leitað til breska ríkisútvarpsins og það beðið um að halda keppnina á næsta ári þar sem framlag Breta lenti í öðru sæti í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×