Körfubolti

Ein sú allra besta frá upp­hafi leggur skóna á hilluna að leik­tíðinni lokinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ein sú albesta, ef ekki sú besta.
Ein sú albesta, ef ekki sú besta. Steph Chambers/Getty Images

Sue Bird, ein albesta körfuknattleikskona allra tíma, mun leggja skóna á hilluna þegar tímabilinu í WNBA-deildinni í körfubolta lýkur.

Hin 41 árs gamla Bird greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni. Þar segir Bird að hún hafi elskað hverja mínútu og muni halda því áfram líkt og hún gerði þegar hún var lítil stelpa.

Bird var valin fyrst í nýliðavali WNBA árið 2002 og hefur því séð tímanna tvenna í boltanum. Hún hefur allan sinn feril leikið með Seattle Storm í WNBA en farið nokkrum sinnum til Rússlands og spilað þar er WNBA deildin hefur ekki verið í gangi. 

Var hún í alls þremur liðum yfir tíu ára tímabil en Bird hefur þó ekki spilað í Rússlandi síðan 2014.

Listinn yfir afrek Bird á ferlinum er lengri en Biblían svo við látum duga að nefna aðalatriðin:

  • Fjórir WNBA titlar, síðast 2020
  • Fimm meistaratitlar í Rússlandi
  • Fimm sinnum unnið EuroLeague
  • Tvisvar unnið Evrópubikarinn
  • Tólf sinnum verið valin í Stjörnuleik WNBA
  • Þrisvar verið stoðsendingahæst í WNBA
  • Fimm sinnum Ólympíumeistari
  • Fjórum sinnum heimsmeistari

Einnig er talið nær öruggt að Sue Bird verði fyrsta konan inn í heiðurshöll WNBA eftir að hún leggur skóna á hilluna. Hver veit nema hún verði búin að bæta við titli og frekari afrekum í safnið áður en það gerist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×