Körfubolti

Stríðs­­mennirnir jöfnuðu metin í úr­­slita­ein­víginu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stephen Curry og Jordan Poole fóru fyrir liði Golden State í nótt.
Stephen Curry og Jordan Poole fóru fyrir liði Golden State í nótt. Ezra Shaw/Getty Images

Golden State Warriors jafnaði metin gegn Boston Celtics í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta. Eftir erfiðar upphafsmínútur settu Stríðsmennirnir frá San Francisco í fimmta gír og unnu 19 stiga sigur, lokatölur 107-88.

Boston vann fyrsta leik liðanna nokkuð sannfærandi og í upphafi þessa leik var það Celtics sem hafði öll völd á vellinum. Stephen Curry og félagar gátu vart keypt sér körfu á meðan sóknarleikur gestanna mallaði áfram.

Þegar fjórar mínútur voru til loka fyrri hálfleiks – í stöðunni 13-22 – þá small eitthvað hjá heimamönnum og þeir fóru að koma boltanum í körfuna. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 31-30 heimamönnum í vil.

Sóknarleikur beggja liða hikstað aðeins í öðrum leikhluta en Stríðsmennirnir leiddu með tveimur stigum í hálfleik, 52-50. Það var svo í þriðja leikhluta sem allt small hjá Golden State á meðan gestirnir voru heillum horfnir.

Til að kóróna frábæran leikhluta þá skoraði Jordan Poole flautukörfu frá miðju er leikhlutinn rann út og heimamenn 23 stigum yfir fyrir fjórða og síðasta leikhluta leiksins.

Það gekk lítið hjá Boston að klóra í bakkann og Golden State Warriors vann sannfærandi 19 stiga sigur, lokatölur 107-88 og allt jafnt í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar.

Stephen Curry var stigahæstur hjá Golden State með 29 stig en hann tók einnig 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Jordan Poole skoraði 17 stig og Kevon Looney kom þar á eftir með 12 stig.

Hjá Boston skoraði Jayson Tatum 28 stig ásamt því að taka 6 fráköst og gefa 3 stoðsendingar. Þar á eftir kom Jaylen Brown með 17 stig.

Leikur þrjú í einvíginu er á aðfaranótt fimtudags, 9. júní. Leikurinn hefst klukkan 01.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Upphitun Lögmál leiksins hálftíma fyrr eða 00.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×