„Þetta er ekki maður sem ætti að búa meðal annars fólks,“ segir Skúli sem bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Hann segir dætur sínar hafa verið hræddar við manninn.
„Þetta er stór og mikill maður og hann gerði í því að vera ógnvænlegur, þá skipti engu máli hvort það var við mig eða litlu dætur mínar, og þær voru skíthræddar við hann.“
Ein af ástæðunum fyrir að hann flutti
Komið hefur fram að lögreglu hafi tvisvar verið gert viðvart í gær vegna ofbeldishegðunar mannsins gagnvart nágrönnum sínum. Maðurinn var þó ekki fjarlægður af heimili sínu, þar sem hann býr með móður sinni. Nokkrum tímum síðar fannst íbúi í kjallara hússins látinn. Stuttu síðar var umræddur maður handtekinn grunaður um að hafa barið nágranna sinn til bana.
Skúli segir ljóst að maðurinn hefði átt að fá viðunandi aðstoð og búa við aðrar aðstæður enda greinilega mjög veikur. „Ég reyndi alltaf að vera almennilegur við hann en hann var afar óþægilegur. Ein af ástæðunum fyrir að við fluttum úr húsinu var að dætrum mínum þótti svo óþægilegt að mæta honum og voru hræddar við hann.“
Skúli segir fleiri en íbúa hússins hafa kvartað undan honum, oft hafi skapast umræða um hann á hverfasíðunni á Facebook enda hafi maðurinn verið gripinn við að vera vondur við dýr.