Fá greitt fyrir aukið álag á hættustundu
Félag grunnskólakennara var stefnandi í málinu gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem var fulltrúi tveggja sveitarfélaga. Í málinu voru reifuð tvö ólík mál. Annars vegar krafa FG um að kjarasamningi væri fylgt og greitt 50 prósent álag fyrir fjarkennslu og hins vegar var deilt um hvort heimilt væri að færa vinnutíma kennara til innan vikulegs vinnutíma án þess að greiða yfirvinnu.
Samkvæmt niðurstöðu dómsins eiga kennarar, sem kenndu nemendum í fjarkennslu í nóvember og desember 2020, rétt á að fá greitt 50% álag fyrir hverja kennslustund sem þeir inntu af hendi jafnvel þótt kennslan hafi farið fram þegar hæsta neyðarstig almannavarna var virkjað.
Sambandið vísaði til bráðabirgðaákvæðis við lög um almannavarnir um að líta mætti á breytta kennsluhætti sem hluta af borgaralegri skyldu á tímum hæsta neyðarstigs. Dómurinn fellst ekki á þetta og ber atvinnurekanda að greiða fyrir vinnuna samkvæmt ákvæðum kjarasamnings.
Breyttar starfsskyldur
Hins vegar var deilt um hvort heimilt væri að færa vinnutíma kennara til innan vikulegs vinnutíma án þess að greiða yfirvinnu. FG fór fram á að kennari, sem alla jafna vann fjóra daga í viku en var gert að vinna fimm daga á tímum hæsta neyðarstigs, fengi greidda yfirvinnu fyrir vinnu á „fimmta deginum“. Vinnustundir kennarans voru í heild þær sömu og áður.
Félagsdómur mat það svo að gerð hafi verið tímabundin breyting á starfsskyldum kennarans án þess að þær hafi verið auknar. Telur dómurinn breyttar starfsskyldur fá stoð í bráðabirgðaákvæði við lög um almannavarnir og „...skiptir grundvallarmáli að í þessu tilviki var vinnutími kennarans ekki aukinn og fjölgaði vinnustundum ekki frá því sem áður hafði verið ákveðið,“ segir í dómsorðinu.
Að mati dómsins sé því ekki hægt að líta svo á kennarinn hafi innt af hendi vinnu umfram vinnuskyldu þannig að réttur skapist til greiðslu yfirvinnu og var kröfu FG um yfirvinnugreiðslu því hafnað.
Nánari upplýsingar um dóminn má finna á vefsíðu Kennarasambands Íslands.